Árleg kaffisala sumarbúða KFUM og KFUK að Hólavatni fer fram sunnudaginn 14. ágúst kl. 14.30-17.00. Verð fyrir fullorðna er 1.500 kr. en 500 kr. fyrir börn 6-12 ára og frítt fyrir leikskólabörn. Á staðnum eru jafnframt leiktæki fyrir börnin, hoppukastali, trampólín og bátar. Þá verður nýbyggingin opin en stefnt að því að taka hana í notkun sumarið 2012.
Sumarið í sumar var eitt það besta í sögu Hólavatns og var aukning á aðsókn frá fyrra ári og voru biðlistar í flesta flokka sumarsins og því ljóst að bæta þarf við dvalarflokkum sumarið 2012. Stjórn sumarbúðanna er þakklát fyrir góða aðsókn og ekki síður fyrir það frábæra starfsfólk sem hélt uppi starfinu í sumar með glæsibrag. Það er Hólavatni mikill fjársjóður að eiga að góðan hóp starfsmanna og sjálfboðaliða sem leggja sig fram við að gera góðar sumarbúðir enn betri.
Kaffisalan á sunnudag er mikilvægur liður í fjáröflun fyrir starfseminni og uppbyggingu staðarins og alveg ljóst að lyfta þarf grettistaki ef takast á að ljúka fjármögnun á nýbyggingunni sem nú rís og allir vona að verði klár næsta sumar. Til að svo megi verða þurfa allir að leggjast á árarnar og taka vel á því. Fjárstuðningur, sjálfboðin vinna og fyrirbæn er forsenda þess að takast megi að nota nýbygginguna sumarið 2012 og er það von okkar að með samhentu átaki megum við ná því marki.