Eins og gefur að skilja reynir stjórn sumarbúðanna að Hólavatni að setja sér markmið að stefna að hverju sinni. Stærsta markmið þessa starfsárs var vissulega það að ljúka við nýbygginguna áður en starfsemin hæfist og það tókst og nú í morgun lagði af stað þriðji hópur sumarsins. Annað markmið stjórnarinnar fyrir sumarið snýr að fjölda skráðra barna og nú um helgina náðist það markmið að 200 eru skráðir á Hólavatn í sumar en það er 25% aukning frá fyrra ári. Ennþá er opið fyrir skráningu og má í því sambandi sérstaklega benda á fjölskylduflokk sem verður helgina 27.-29. júlí. Í þeim flokki er gert ráð fyrir að hver fjölskylda hafi eitt herbergi til ráðstöfunar og því aðeins pláss fyrir um 7 fjölskyldur sem geta notið þess besta sem Hólavatn hefur upp á að bjóða. Í flokknum verður létt dagskrá en mikið lagt upp úr því að fólk hafi tíma til að njóta og vera saman. Matseldin verður í öruggum höndum, tveir bátaforingjar við vatnið til að gæta að öryggi barnanna og forstöðumaður verður Páll Ágúst Ólafsson, framkvæmdastjóri Háteigskirkju. Kostnaði er haldið í lágmarki og kostar 7.900  kr. á mann fyrir alla 6 ára og eldri en þó er hámarksgjald á fjölskyldu 27.500 kr.  Sem þýðir í raun að hjón með tvö börn á skólaaldri greiða aðeins 6.875 kr. á mann fyrir gistingu, dagskrá og mat fyrir heila helgi. – Ódýrara verður það ekki.