Í dag var sérstakur dagur því tvær stúlknanna áttu afmæli í dag og í dag er veisludagur. Því hófst dagurinn með afmælissöng og vöknuðu dömurnar ljúflega rétt um klukkan níu. Eftir fánahyllingu var morgunmatur og virtist matarlystin hafa aukist um nóttina – svo hraustlega tóku þær til matar síns. Eftir morgunstundina var frjáls tími sem nýttur var úti í glampandi sól og hita. Í hádegismat fengum við lasagna sem fékk sérstakt hrós frá hópnum. Þá hófst ævintýraleikur sem byggðist á því að finna þrjá foringja sem höfðu strokið. Stóð hann fram að kaffi en þá var afmælisveisla haldin úti í sólinni. Nýbakaðir kanilsnúðar með glassúr, kex og drykkir runnu ljúflega niður. Vatnafjör var eftir kaffi í fjörunni þar sem stelpurnar björguðu bátum og sjálfum sér hvað eftir annað, syntu í vatninu eða hreinlega stukku aftur og aftur ofan í. Veðrið var dásamlegt og meira að segja fullheitt á köflum að sumra mati. Sérstaklega var gengið á eftir stelpunum að drekka vel af vatni og setja á sig sólvörn. Um sex leytið fóru flestar í sturtu og höfðu sig til fyrir veislukvöldið sem hófst rétt upp úr klukkan sjö. Á borð voru bornar pizzur og djús og strax í kjölfarið hófst kvöldvaka að hætti Hólavatns. Foringjar léku leikrit og fóru með gamanmál af ýmsu tagi, flest úr smiðju sumarbúða með Hólavatnsblæ, en annað spunnið á staðnum með keim af söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Sjónvarp Hólvatns vakti mikla kátínu þar sem sagðar voru fréttir – og leiknar – úr flokknum. Stúlkurnar skemmtu sér konunglega og sungu líka betur en nokkru sinni, sumar þó orðnar nokkuð hásar – ekki bara af kröftugum söng. Eftir að hafa gætt sér á poppkorni hlýddu þær á hugleiðingu og sungu svo kvöldsönginn með öllum fimm erindunum. Í lokin voru bornir fram ávextir sem létt hressing fyrir svefninn. En þá kom rúsínan í pylsuendanum. Þær sem vildu máttu sofa úti í nótt. Margar vildu það og var settur stór plastdúkur út á hlað og mjúkar rúmdýnur þar ofan á. Stúlkurnar komu sér fyrir undir sínum sængum vel klæddar og spenntar, enda tók nokkurn tíma að koma ró á hópinn. Þetta hefur verið yndislegur dagur í einstöku veðri með dásamlegum stúlkum.
Kveðja, Auður Pálsdóttir forstöðukona.