Helgina 28.-30. júní var haldinn Riddaraflokkur á Hólavatni fyrir drengi 9-12 ára. Þetta var í fyrsta sinn sem boðið var upp á sérstakan flokk á Hólavatni fyrir drengi með ADHD eða skyldar raskanir en það var foreldrafélag ADHD samtakanna á Norðurlandi sem leitaði til Hólavatns með þá ósk hvort ekki mætti skoða að bjóða upp á flokk á Hólavatni sambærilegan Gauraflokk í Vatnaskógi en sá flokkur hefur verið vel sóttur undanfarin sumur og auk þess hefur verið sérstakur flokkur í Kaldárseli fyrir stelpur með ADHD.

Tíu drengir mættu í flokkinn sem var ánægjulegur og veðrið gott og því var mikið siglt á vatninu og veiðimet slegið því alls voru um þrjátíu fiskar dregnir að landi. Farið var í sveitaheimsókn á bæinn Vatnsenda og voru viðtökur þar hreint út sagt frábærar eins og alltaf. Þá voru drengirnir liðtækir við ýmis verk og meðal annars var farið út í  skóg til að saga niður í eldivið fyrir varðeldinn og svo voru fluttar til nokkrar litlar aspir sem þurftu betri staðsetningu og margt fleira gert.

Fjörugir, skapandi og flottir strákar komu svo heim þegar klukkan var langt genginn i níu á sunnudagskvöld og ánægjulegt að það skyldi takast að bjóða drengjum á Norðurlandi upp á sumarbúðadvöl sem sniðin var að þeirra þörfum og áhugasviði.

Myndir úr flokknum má skoða hér:

http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634423985285/