Á mánudaginn komu 35 hressir og fjörugir dregnir á Hólavatn fullir tilhlökkunar. Það var ljóst við brottför að þessum drengjum langaði á báta og vildu veiða, enda hafa foringjarnir leyst mjög margar flækjur :-). Þegar komið var á Hólavatn hófst flokkurinn á kynningu á reglum staðarins og bátareglum sem mikilvægt er að fylgja, að því loknu fór allur flokkurinn upp í laut þar sem farið var í hópleiki til þess að hrista hópinn saman og kynnast betur. Eftir lautarferðina var hádegismatur og snæddu drengirnir skyr og brauð. Eftir hádegismat var boðið upp á báta og lætur nærri að allir drengirnar hafi farið á bát og létu þeir rigninuna ekki á sig fá, einnig var boðið upp á fótbolta og gönguferð. Við horfðum að sjálfsögðu á leikinn á risatjaldi í salnum og var mikill tilfinningahiti í drengjunum sem fögnuðu ákaft sigri Íslands. Um kvöldið var kvöldvaka þar sem að foringjar drengjanna sýndu leikrit og voru með skemmtiatriði. Deginum lauk með ávaxtahressingu og voru flestir drengirnir sofnaðir um kl. 22:30.

 

Á þriðjudaginn lék veðrið ekki beint við okkur hér var kalt og blautt, en það rigndi frá morgni til kvölds. Drengirnir voru vaktir kl. 8:30 úthvíldir og fullir orku. Við hófum daginn með morgunbæn og síðan var morgunmatur og var að venju boðið upp á hafrahringi, kornflögur og súrmjólk. Á morgunstund fjallaði Guðmundur forstöðumaður um sköpun Guðs og mikilvægi þess að við sýnum henni virðingu. Eftir morgunstund var aðsjálfsögðu boðið upp á báta og einnig var þeim sem vildu boðið að fara með foringja í veiðiferð út á vatn og þáðu það um 20 drengir. Í hádeginu var boðið upp á fisk og grænmeti. Eftir hádegismat var margt spennandi í boði bæði inni og úti að venju var farið á báta og einnig var minifótboltaspilsmót, sem um 24 drengir tóku þátt í. Eftir síðdegishressingu var farið í sveitaferð til vina Hólavatns á Vatnsenda þar fengu drengirnir að skoða fjósið og kynnast örlítið sveitalífinu. Við borðum pasta í kvöldmat og grilluðum „smores“ að hætti Bandaríkjamanna.

Í dag er nýr dýrðardagur á Hólavatni og lofar veðrið góðu það er sól og 14 stiga hiti og verður ýmislegt brallað!

Hér má sjá myndir úr flokknum.

Jón Ómar Gunnarsson