Á Hólavatni er margt hægt að gera, vatnið, skógurinn og umhverfið í kring bjóða upp á ótæmandi möguleika til spennandi útiveru og leikja. Á svæðinu er auk þess fótboltavöllur, risahengirúm, körfuboltavöllur og bátar.

Í næsta nágreni við Hólavatn er Hólakirkja, lítil og falleg sveitakirkja þar sem við höfum lokasamveru í 5 daga flokkum.

Dagskráin

Hver dagur hefst með morgunverði, fánahyllingu og morgunstund.

Síðan er margt í boði:

Bátar og vatnafjör: Bátsferðir eru alltaf vinsælar og þegar vel viðrar er gaman að fara á bát, en  til eru bæði árabátar og hjólabátar.  Að sjálfsögðu er alltaf vakt við vatnið, allir í björgunarvestum og foringjar fara gjarnan með í bátsferðir og kenna réttu handtökin.

Þá er skemmtilegt á sólríkum dögum að busla í vatninu og leika sér í fjörunni.

Fyrir veiðiáhugamenn er gaman að taka með veiðistöng og láta reyna á að veiða fisk í Hólavatni.

Hjólabílar: Á Hólavatni eru þrír skemmtilegir hjólabílar sem hægt er að aka á planinu í kringum húsið.

Íþróttir og útileikir: Á Hólavatni er mikið lagt upp úr fjölbreyttum útileikjum og gjarnan er keppt í óhefðbundnum greinum og þrautum eins og rólustökki, stígvélasparki, brúsahaldi og riddaraþraut. Þá eru ævintýraleikir, flóttamannaleikurinn og skotbolti í lautinni eitthvað sem flestir Hólvetningar kannast vel við.

Knattspyrna: Það er skemmtilegt að spila fótbolta í góðra vina hópi en það fer svolítið eftir áhuga innan hvers hóps hve mikið er farið á völlinn en foringjaleikurinn er alltaf ómissandi en þá skorar starfsfólkið á krakkana og oft er mikið fjör og kapp í að sigra foringjana sem sjálfir segjast vera ósigrandi.

Innileikir og aðstaða: Á Hólavatni eru tvö fótboltaspil, borðtennisborð, taflborð, fjölbreytt úrval af spilum og bókum. Þá er vinsælt að perla, föndra, lita og mála.

Útisvæði: Á staðnum er fótboltavöllur, körfuboltavöllur, stangartennis, folfvöllur, trampólín og fleiri útileiktæki. Umhverfis staðinn er skemmtilegur skógur og gönguleiðir.

Matartímar: Á hverjum degi er borðað með reglulegu millibili. Morgunmatur, hádegismatur, síðdegishressing, kvöldmatur og kvöldhressing eru í boði á hverjum degi.

Kvöldvökur: Öll kvöld enda með kvöldvöku þar sem brugðið er á leik og sungnir hressir sumarbúðasöngvar. Auk þess er kafli úr Guðs orði hugleiddur kvölds og morgna.

Við vekjum athygli á því að dagskrá hvers flokks er ólík. Mismunandi forstöðufólk stýrir flokkunum og veðrið hefur mikið að segja. En allir flokkar eru unnir af metnaði og gleði, með það markmið að öllum líði  vel.