Í tilefni af 45 ára afmæli sumarbúðanna Hólavatni þann 20. júní næstkomandi verður efnt til fjölskylduhátíðar og Hólavatnshlaups. Þeir sem vilja leggja starfinu á Hólavatni lið geta hlaupið eða hjólað frá Akureyri að Hólavatni um 40 kílómetra leið. Lagt verður af stað kl. 9.00 að morgni sunnudagsins 20. júní og getur fólk valið um að klára vegalengdina sjálft eða í tveggja eða fjögurra manna liðum. Hver þátttakandi greiðir þátttökugjald að upphæð 5.000 kr. og svo verður tekið við áheitum en það gefur öllum kost á að leggja sitt að mörkum í þessum skemmtilega viðburði. Allar frekari upplýsingar og skráning fara fram á sérstakri vefsíðu hlaupsins
http://holavatnshlaup.blogspot.com.
Fjölskylduhátíð hefst svo á Hólavatni kl. 14.00 og verður boðið uppá afmælisköku og kaffi en áhersla verður á útiveru, báta, hoppukastala og fleira. Stefnt er að því að klára að loka nýbyggingunni fyrir afmælið og verður því þeim áfanga fagnað á þessum tímamótum. Framundan eru því margar vinnuferðir og geta áhugasamir haft samband við
Johann@kfum.is því næg eru verkefnin.
Skráning fyrir sumarið er góð og þegar hafa verið skráð fleiri börn en dvöldu við Hólavatn síðastliðið sumar. Búið er að breyta 1. flokk í blandaðan flokk fyrir 7-8 ára og eru nokkur laus pláss þar. Þá verður 6. flokkur sérstakur knattspyrnuflokkur fyrir 11-13 ára stráka.