Sumarbúðirnar Hólavatni eru staðsettar innarlega í Eyjafirði í fallegu umhverfi. Dagskráin er fjölbreytt, skemmtileg og hver dagur endar á kvöldvöku þar sem allir fá að taka virkan þátt. Lögð er áhersla á vináttu, sköpunargleði og traust og að hvert barn vilji koma aftur og aftur á Hólavatn.

Fagurt umhverfið gefur kost á hollri útivist og að sjálfsögðu hefur Hólavatnið sjálft upp á ýmsa töfrandi kosti að bjóða, svo sem hressandi bátsferðir, stangveiði og baðstrandarlíf á heitum dögum. Þá eru ýmsar íþróttir stundaðar af kappi á staðnum, farið í hópleiki og gjarnan litið við á bóndabæ í nágrenninu til að kynnast störfum í sveitinni. Á Hólavatni fer fram fræðsla um kristna trú á hverjum degi. Oft er sungið við raust og hver dagur endar með kvöldvöku þar sem saman fer gaman og alvara. Eitt vinsælasta leiktækið eru nýju stóru plastkúlurnar sem hægt er að fara inn í og ganga svo á vatninu. Þá er á staðnum fótboltavöllur, blakvöllur, körfuboltavöllur, hjólabílar, útileiktæki og margt fleira skemmtilegt.

Húsakostur hefur breyst mikið með tilkomu 200 fermetra nýbyggingar sem tekin var í notkun sumarið 2012. Þar eru fimm herbergi með rúmum fyrir 34 og svo tvö starfsmannaherbergi. Eldri svefnaðstöðu í gamla hlutanum hefur verið breytt í tómstundarými með borðtennisborði, fótboltaspili og fönduraðstöðu.

Hólabær er starfsmannabústaður með tveimur herbergjum.

Í hverjum flokki dvelja mest 34 börn. Þau börn sem koma með flugi frá Reykjavík eru sótt á flugvöllinn sé þess óskað.