Föstudaginn 17. apríl var undirritaður verksamningur á milli sumarbúðanna á Hólavatni og Loftorku um framleiðslu á forsteyptum einingum fyrir nýjan skála sem rísa mun á Hólavatni. Heildarverðmæti samningsins er um 10 milljónir króna og því ljóst að stórt skref er stigið í áttina að nýrri byggingu. Verkáætlun gerir ráð fyrir því að grunnur verði tekinn nú um næstu mánaðarmót og áður en sumarstarf hefst verður neðri hæð hússins reist. Eftir að sumarstarfi lýkur verður svo haldið áfram og stefnt er að því að loka húsinu fyrir veturinn. Fjármögnun þessa stóra verkefnis hefur farið vel af stað en ljóst er að betur má ef duga skal og er velunnurum bent, meðal annars, á sölu styrktarpenna sem fást á skrifstofu félagsins en hver penni er merktur með ártali sem tengist sögu sumarbúðanna frá 1965 til okkar dags.