Dagana 20.-26. júlí verður ævintýraflokkur á Hólavatni fyrir 11-13 ára stráka og stelpur. Þetta er engin venjuleg skemmtun og það verður ekkert sparað. Farið verður í sólarhringsútilegu, keppt í fjölmörgum íþróttagreinum og í miðjum flokk verður söngvakeppni þar sem Jónsi úr Svörtum fötum kennir réttu taktana og dæmir svo frammistöðu keppenda ásamt dómnefnd.
Auk þess fer hópurinn í heimsókn á Vatnsenda sem er næsti bær og þar geta allir prófað að mjólka kýrnar, hoppa í heyinu, gefa kálfum pela, klappa kettlingum og margt fleira.
Í Ævintýraflokk á Hólavatni komast 24 krakkar í heildina og því er persónuleg stemmning og enginn útundan. Hægt er að koma með flugi frá Reykjavík á mánudagsmorgni og fara heim síðdegis á sunnudeginum.