Miðvikudaginn 17. mars var haldinn aðalfundur tveggja starfsstöðva á Norðurlandi. Fluttar voru ársskýrslur og lagðir fram reikningar, auk þess sem kosið var í stjórnir starfsstöðvanna. Þá sagði Jóhann Þorsteinsson, Svæðisfulltrúi KFUM og KFUK á Norðurlandi frá ferð sinni til Rúmeníu en þangað fór hann í september á síðasta ári á starfsmannaráðstefnu KFUM og KFUK í Evrópu.
Í stjórn KFUM og KFUK á Akureyri voru kosnar þær Astrid Hafsteinsdóttir, Brynhildur Bjarnadóttir og Katrín Harðardóttir. Varamenn eru þær Arna Axelsdóttir og Ragnheiður Harpa Arnardóttir. Í stjórn Hólavatns voru endurkjörin, Anna Elísa Hreiðarsdóttir, Arnar Yngvason, Hreinn Andrés Hreinsson, Jóhann Þorsteinsson og Þórður Daníelsson. Varamenn eru þær Anna Ingólfsdóttir og Brynhildur Bjarnadóttir.
Meðal þess sem rætt var á fundinum var staða byggingarframkæmda við Hólavatn en á árinu 2009 var framkvæmt fyrir tæplega 12 milljónir króna og hefur sá hluti framkvæmdanna verið greiddur að fullu. Á þessu ári er útlit fyrir að hægt verði að framkvæma fyrir um 6 milljónir króna en meðal þeirra styrkja sem fengist hafa til verksins er tveggja milljóna króna framlag Akureyrarbæjar, auk annarra styrkja sem gera það mögulegt að halda verkinu áfram. Vonir standa til að hægt verði að taka húsið í notkun, að hluta eða í heild, sumarið 2011 en til þess að svo geti orðið þarf að safna um átta milljónum til viðbótar við þau framlög sem þegar hafa borist.