Fréttir frá Hólavatni berast ekki eins ört og frá öðrum sumarbúðum KFUM og KFUK þar sem að á Hólavatni er ekkert netsamband. Reyndar er þar heldur ekki gsm samband og því er þetta sannkallaður sælureitur, friðsæll og fallegur. Myndir úr síðasta flokki eru nú komnar á vefinn og jafnframt nokkrar myndir úr 3. flokki sem hófst í gær. Stelpurnar í 3. flokki eru hressar og kátar og meirihluti þeirra hefur áður dvalið við Hólavatn og því heimavanar. Í gær var skotbolti, afmæliskaka og bátsferðir meðal þess sem helst stóð uppúr en stelpurnar voru svo lánsamar að fá í kaffinu afgang af afmælisköku Hólavatns sem borin var fram fyrir gesti síðastliðinn sunnudag en þá komu um 150 manns saman á Hólavatni og fögnuðu 45 ára afmæli sumarbúðanna.
Veðrið hefur verið með ágætum það sem af er, skýjað en hlýtt og þurrt. Framundan eru því spennandi dagar og vonandi birtast hér fleiri myndir áður en flokknum lýkur á föstudag.