Á laugardag var vinnuflokkur á Hólavatni og voru menn að brasa við nýbyggingarframkvæmdir en þessa dagana er verið að ljúka við frágang utanhúss, auk þess sem verið er að gera klárt fyrir sandspörslun og málningu inni. Fjármögnun verkefnisins er vel á veg komin og vantar aðeins um 5-7 milljónir króna til þess að hægt verði að ljúka við húsið án þess að skuldsetja sumarbúðirnar til framtíðar. Það er þó öllum ljóst sem að verkinu koma að mikil vinna sjálfboðaliða er enn óunnin og þó svo að talsvert fé hafi safnast til verksins má ætla að margir af helstu velunnurum Hólavatns hafi þegar gefið ríflega til verksins og því getur það reynst langsótt að ljúka við fjársöfnunina þó svo að upphæðin sé ekki mjög há í samanburði við heildina. Á laugardag var alveg einstök veðurblíða eins og sjá má á þeim myndum sem hér fylgja og hefur það verið alveg stórkostlegt hve vel hefur viðrað til framkvæmda nú í haust og vonumst við til að svo verði eitthvað áfram. Við hvetjum alla þá sem eitthvað geta lagt að mörkum að láta sitt ekki eftir liggja, hvort sem það er fyrirbæn, fjárstuðningur eða sjálboðavinna. Allar frekari upplýsingar um verkefnið veitir Jóhann Þorsteinsson (johann(hjá)kfum.is).