Fyrir tæplega tveimur árum hófust framkvæmdir við 210 fm nýbyggingu við sumarbúðir KFUM og KFUK að Hólavatni. Framkvæmdum hefur miðað vel og á liðnu hausti var lokið við að einangra þak og sandsparsla alla útveggi. Fjármögnun verkefnisins hefur gengið nokkuð vel og á þessu ári fær Hólavatn tveggja milljóna króna styrk frá Ríkissjóði og sömu upphæð frá Bæjarráði Akureyrarbæjar. Samkvæmt fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 3 milljónum til ráðstöfunar þessu til viðbótar á árinu 2011 og því ljóst að góður gangur verður í verkefninu á þessu ári. Nú þegar hefur verið lokið við að grunna og mála fyrstu umferð á alla steypta veggi og loft á neðri hæð. Á næstu vikum verður ráðist í að koma ofnum upp í nýbyggingunni og á sama tíma verður eldri ofnum og ofnalögn eldra húsnæðis skipt út. Þá er stefnt að því að slá upp innveggjum og klæða loft á efri hæð fyrir sumarið.

Vissulega eru Hólvetningar óþreyjufullir í eftirvæntingu fyrir nýju og bættu húsnæði en framtíðarsýn stjórnarinnar er alveg skýr á þá leið að ekki megi skuldsetja starfið á framkvæmdatímum því slíkur baggi getur reynst starfseminni til trafala. Því verður ekki framkvæmt meira en hægt er að greiða fyrir og áfram verður unnið að langmestu leyti í sjálfboðavinnu. Áfram biðlum við til allra vina og velunnara að styðja við framkvæmdina og starfið á Hólavatni með fyrirbæn og framlögum. Reikningur Hólavatns er 0565-26-30525 og kennitalan er 510178-1659. Þá má vekja athygli á því að enn eru fáanlegir styrktarpennar merktir ártali en gerðir voru 50 slíkir pennar með ártölum frá 1965-2015. Hver penni kostar að lágmarki eins og dvöl í sumarbúðunum eða um 30.000 krónur.