Á fimmtudag í síðustu viku var hleypt af stokkunum áheitasöfnun fyrir byggingarsjóð Hólavatns og hafa viðbrögðin verið einkar ánægjuleg. Söfnun þessi gengur þannig fyrir sig að einstaklingar og fyrirtæki eiga þess kost að heita ákveðinni upphæð í byggingarsjóð Hólavatns fyrir hvert það barn sem dvelur á Hólavatni sumarið 2011. Sumarið 2010 dvöldu 150 börn á Hólavatni og ef uppselt verður í alla dvalarflokka sumarsins 2011 munu um 200 börn komast að á Hólavatni í sumar. Því þarf að margfalda þá upphæð sem lögð er fram sem áheit á hvern krakka með 150 til 200 til þess að fá fram heildarupphæð styrksins.
Sérstök áheitasíða hefur verið stofnuð á Fésbókinni (Facebook) undir nafninu "Byggjum upp Hólavatn" og þar geta áhugasamir Fésbókarnotendur lagt fram sín áheit en jafnframt er hægt að senda tölvupóst á johann(hjá)kfum.is og tilgreina upphæð og nafn þess sem styrkir. Í lok sumars verður svo sendur út tölvupóstur með reikningsnúmeri og upphæð svo þátttakendur geti greitt út áheit sín til Hólavatns.
Það er ánægjulegt að lesa þann jákvæða vitnisburð sem Hólavatn fær frá þeim fjölmörgu sem þegar hafa lagt fram áheit á Fésbókinni og má nefna sem dæmi setningar eins og "endalausar góðar minningar frá þessum stað" og "besti staður í heimi :)" Á því er enginn vafi að fjölmargir eiga góðar og jákvæðar minningar frá dvöl sinni við Hólavatn og er það von okkar að þessi áheitasöfnun megi verða til þess að nýr skáli sem nú er í byggingu verði tilbúinn til notkunar sumarið 2012.
Á einni viku hafa safnast áheit fyrir 1.377 kr. á hvert barn og gerir það 200-275 þúsund krónur í heildina, allt eftir því hver heildarfjöldi barna verður í sumar. En að baki þessum áheitum eru aðeins 43 einstaklingar og því ánægjulegt til þess að vita hve mörg við erum sem skipum okkur í sveit KFUM og KFUK og getum lagt lítil lóð á vogarskálar og þannig í sameiningu lyft grettistaki. Ef allir eru með og leggja sitt að mörkum þá mun þessi áheitasöfnun skipta sköpum fyrir uppbyggingu Hólavatns. Því allir geta eitthvað, en enginn getur allt.