Þriggja daga Frumkvöðlaflokki er lokið á Hólavatni en hann hófst á fimmtudag og lauk í dag með heimsókn foreldra og systkina. Það var heilmikið um að vera í gær en dagurinn hófst með morgunstund þar sem farið var í efni sköpunarsögunnar eins og hún birtist í 1. Mósebók. Að því loknu fengu krakkarnir að perla eða teikna myndir sem tengdust sköpunarþemanu og var gaman að sjá hvað þau voru öll virk og áhugasöm. Þá var farið út í ýmsa leiki og keppt í rúsínuskirpingum. Stíflugerð í fjörunni náði áður óþekktum hæðum og alltaf var metnaður fyrir að gera stærri og betri stíflu sem brast þó að lokum enda erfitt að standast þann vatnflaum sem lensidælan nær að pumpa upp úr vatninu.
Í gærkvöldi var svo komið að strákunum að flytja leikrit og var stórkostlegt að sjá þá alla í einu og sama leikritinu. Búningarnir voru fjölbreyttir og mikið fjör á kvöldvökunni sem endaði með því að allir fengu íspinna. Myndir frá gærdeginum má finna
hér á vefnum.
Í dag, heimferðardag, var mikið um dýrðir en allir fengu foreldra og systkini í heimsókn og voru því alls um 70 manns á staðnum þegar mest var. Það er líka gaman frá því að segja að Frumkvöðlaflokkur var sérstakur að því leiti að allt starfsfólk flokksins vann í sjálfboðavinnu og af átta starfsmönnum voru fimm aðalmenn úr stjórn Hólavatns og einn varamaður. Verður það að teljast til tíðinda að hægt sé að fullmanna starfsmannahópinn með stjórnarfólki og var þetta tvímælalaust frábær byrjun á sumrinu.
Næsti flokkur fer á Hólavatn á mánudagsmorgun kl. 9.00 og er hann fullbókaður en ennþá eru örfá laus pláss í 3. flokk 13.-17. júní en sá flokkur er fyrir 11-13 ára stelpur.