Þann 28. desember s.l. fóru Arnar Yngvason og Jóhann Þorsteinsson, fyrir hönd Hólavatns, í móttöku í KA heimilinu á Akureyri sem Samherji hf. boðaði til en um var að ræða árlega styrkveitingu Samherja til íþrótta og æskulýðsstarfs á Norðurlandi. Þetta er annað árið í röð sem sumarbúðirnar að Hólavatni fá styrk frá Samherja og líkt og 2010 var styrkurinn að upphæð 500 þúsund krónur.

Það er mikil viðurkenning og þakkarvert fyrir Hólvetninga að fá að vera í hópi þeirra sem hljóta styrk en eins og flestir vita er nú unnið að markvissri uppbyggingu á allri aðstöðu við Hólavatn og hefur aðsókn aukist ár frá ári og til marks um þann árangur sem náðst hefur voru dvalargestir sumarið 2011 þrisvar sinnum fleiri en sumarið 2006. Í sumar er stefnt að því að taka í notkun nýja 210 fermetra byggingu sem hefur að geyma 5 herbergi fyrir börn, 2 starfsmannaherbergi og nýjar snyrtingar. Til að það megi takast verða allir vinir og velunnarar Hólavatns að taka höndum saman og gefa að peningum sínum og tíma. Stefnt er að því að fara vinnuferðir flesta laugardaga fram á sumar og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við johann(hja)kfum.is. Þá er tekið við fjárframlögum til Hólavatns á reikning 0565-26-30525 og kennitalan er 510178-1659. Biðjum fyrir blessun Guðs yfir nýtt ár í starfi Hólavatns.