Það var hress hópur af 7 og 8 ára strákum og stelpum sem lögðu upp frá Sunnuhlíð á Akureyri í morgun til að taka þátt í Frumkvöðlaflokki á Hólavatni sem stendur fram á laugardag. Nú þegar þetta er skrifað er allt dottið í dúnalogn eftir viðburðaríkan dag. Eftir að krakkarnir höfðu komið sér fyrir í nýja húsinu og dásamað flottu herbergin skelltu allir sér út að leika.Eftir nokkra stund barst leikurinn niður í fjöru þar sem að miklar stífluframkvæmdir fóru í gang. Mikið var mokað og þjappað og vatnsburðurinn var í fötum og ílátum af ýmsum stærðum og gerðum en þrátt fyrir mikinn verkvilja þá hafði vatnið alltaf betur og stíflan brast en þá var bara byrjað aftur og sagan endurtók sig. Eftir pizzuveislu í hádeginu var samverustund með söng og fræðslu um Gullnu regluna. Nokkrar umræður voru um hvað það þýðir að koma eins fram við aðra eins og við viljum að sé komið fram við okkur og að því loknu var hafist handa við að teikna og mála á sex metra langa pappírsörk myndir um vináttuna og mikilvægi þess að við komum vel fram við hvert annað. Eftir kaffið var svo komið að því að prófa bátana og skiljanlega var mikill spenningur í hópnum en allt gekk vel enda bátsferðir í fylgd með fullorðnum. Svo var farið inn að perla og undirbúa kvöldvökuleikrit og var enginn svikinn af þeim frábæru leikritum sem krakkarnir úr herbergjunum Hólsgerði og Hólakoti buðu upp á. Fyrir svefninn var svo boðið upp á smá popp og ávexti og flestir voru eldsnöggir að sofna en nokkrir þurftu örlítið lengri stund en öllum líður vel og eftirvænting fyrir morgundeginum er mikil. Hægt er að fylgjast með myndum og skilaboðum inn á Fésbókarsíðu Hólavatns. www.facebook.com/holavatn.