Í dag var sofið örlítið lengur vegna þess hve seint var farið í rúmið í gærkvöldi. Vakið var uppúr klukkan níu og var þá ríflega helmingur stelpnanna ennþá steinsofandi. Á morgunstundinni var fjallað um kærleikann og það hve gott það er að eiga einhvern að sem þykir vænt um mann og hve dýrmætt það er jafnframt að eiga Jesú fyrir vin sem við getum leitað til í gleði og sorg. Að því loknu var farið á bátana og seinni helmingur hópsins fékk tækifæri til að hlaupa á vatninu innan í stórri plastkúlu og voru allar stelpurnar sammála um að það væri algjörlega magnað leiktæki.

Eftir hádegi var svo haldið út á fótboltavöll og keppt í ýmsum greinum á Furðuleikum Hólavatns. Rúsínuskyrpingar, brúsahald, stígvélaspark og fleira var meðal þess sem í boði var áður en að stelpurnar öttu kappi við foringjana í knattspyrnu. Var það hörkuspennandi leikur og tilþrifin engu minni en á EM og var jafnt á með liðunum allan tímann en stelpurnar höfðu betur í lokin og sigruðu leikinn 5-4.

Eftir kaffi var farið í sveitaheimsókn á bæinn Vatnsenda og þar fengu stelpurnar að prófa að mjólka og fylgjast með sveitarstörfum. Eftir kvöldmat er svo fyrirhugað að hafa varðeld og grilla brauð á spýtu og það verða klárlega dauðþreyttar en ánægðar stelpur sem leggjast til hvílu í kvöld.

Rétt er að geta þess til upplýsinga fyrir foreldra að í dag urðu forstöðumannsskipti í flokknum en Sólveig Reynisdóttir, kennari og reynslubolti í sumarbúðunum tók við af Jóhanni Þorsteinssyni sem fór inná Akureyri síðdegis.