Enn einn sólardagur í stórkostlegu umhverfi. Stúlkurnar voru vaktar klukkan 8:59 og voru mættir fimmtán mínútum síðar út að fánastöng. Þar sungu þær einum rómi fánasönginn Rís þú fáni á friðarvegi … og íslenski fáninn var dreginn að húni (eins og alla morgna í sumarbúðunum). Við tóku nokkrar útijógaæfingar til að hressa upp á stemmninguna í hópnum – gekk það vel enda tóku stúlkurnar vel á því í morgunmatnum. Í morgunstundinni var fjallað um hjálpsemi og hvernig við veljum sjálf hvernig við bregðumst við þeim aðstæðum sem við lendum í. Þá unnu þær áfram í bænabókinni sinni sem þær eru að safna í bænum eftir sjálfa sig eða aðra. Bátarnir voru opnaðir eftir morgunstundina enda ótrúleg stemmning alltaf í kringum þá og vatnskúluna (glær plaskúla sem eins stúlka í einu fer inn í, henni er lokað og svo velta þær henni og sjálfri sér úti í vatninu). Í hádegismat var pasta og hvítlauksbrauð sem féll svakalega vel í kramið. Eftir hádegi var frjáls tími en bannað að vera inni. Foringjarnir stóðu fyrir skemmtilegheitum við vatnið fram að kaffi sem fór fram úti enda veður dásamlegt. Stúlkurnar gæddu sér á bananabrauði og smákökum – allt nýbakað á staðnum. Eftir kaffi var farið í sveitaferð að bænum Vatnsenda (næsti bær austan við vatnið) þar sem stúlkurnar fengu að mjólka kýr, kjassa litla kettlinga og gæla við önnur dýr. Kvöldmatur fól í sér gult skyr og brauð og er óhætt að segja að vel hafi verið borðað. Kvöldvaka með leikritum, söng og gríni hófst rétt upp úr klukkan átta en eftir hugleiðingu voru dýnur bornar inn í salinn og kósíkvöld tók við. Popp og bíó féll vel í kramið þótt vissulega væru sumar orðnar þreyttar eftir sólríkan dag og mikla útiveru.
Kveðja, Auður Pálsdóttir forstöðukona