Um morguninn voru strákarnir vaktir og þeim sagt að tímabelti Hólavatns hefði tekið miklum breytingum um nóttina og matartímarnir allir í rangri röð. Því væri ekki að byrja morgunmatur heldur kvöldmatur. Með þessar upplýsingar í farteskinu fóru þeir út að fánastöng þar sem fyrsta fánahylling flokksins fór fram. Því næst héldu þeir inn í matsal og borðuðu ávaxtasúrmjólk. Eftir að þeir höfðu borðað nægju sína fengu þeir tækifæri til þess að tannbursta sig og taka til í herberginu áður en þeir fóru á morgunstund. Að henni lokinni héldu þeir í morgunmat og var þá boðið upp á morgunkorn. Hlýtt var í veðri og stefnan var tekin í hina sívinsælu Drulluvík þar sem strákarnir fengu að busla í vatninu og leika sér í drullunni. Þaðan komu þeir svangir heim og fengu ljúffengan fiskrétt í hádegismat (meðan annars staðar á landinu var kaffitími). Eftir hádegismatinn var boðið upp á stöðvar sem strákarnir fengu að velja það sem þeim leist best á. Valmöguleikarnir voru þrír: fótbolti, keppni í stangartennis og stuttmyndagerð. Í kaffitímanum (kvöldmatnum) var boðið upp á súkkulaðiköku og kryddbrauð með smjöri og osti. Um hálf níu byrjaði kvöldvakan þar sem strákarnir sungu ýmis lög, fóru í leiki og horfðu á leikrit. Að kvöldvöku lokinni var þeim boðið að gista úti undir berum himni. Fáir höfðu prófað þetta áður og því urðu þeir mjög spenntir. Eftir að hafa klætt sig vel, burstað tennur og komið með dýnu og sæng út var hlýtt á sögu áður en farið var að sofa. Flestir strákarnir voru fljótir að sofna enda hlýtt í veðri og þeir þreyttir eftir annasaman dag.

Kveðja, Ripp, Rapp og Rupp