bilar
Það er gömul og góð íslensk hefð að gefa sumargjafir og Bílaleiga Akureyrar – Höldur ehf lét sitt ekki eftir liggja í vikunni þegar Steingrímur Birgisson forstjóri færði sumarbúðum KFUM og KFUK á Hólavatni þrjá nýja hjólabíla að gjöf.
Jóhann Þorsteinsson, starfsmaður KFUM og KFUK á Norðurlandi veitti bílunum viðtöku og þakkaði kærlega stuðninginn fyrir hönd barnanna á Hólavatni.
 
Við Hólavatn hafa KFUM og KFUK rekið sumarbúðir frá 1965 og því má segja að þar fari tveir jafnaldrar því Bílaleiga Akureyrar rekur upphaf sitt til ársins 1966. Á Hólavatni er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu og eru hjólabílarnir kærkomin viðbót við þá aðstöðu sem þegar er fyrir hendi. Síðastliðið sumar var tekið í notkun nýtt og glæsilegt húsnæði og dvöldu alls um 200 börn í búðunum í fyrra. Skráning er þegar hafin fyrir sumarið og er þegar búið að skrá vel á annað hundrað börn en möguleiki er að taka við allt að 300 börnum í sumar. Nánari upplýsingar um skráningu má finna á www.kfum.is.