holavatn

Árleg kaffisala Hólavatns fer fram sunnudaginn 17. ágúst kl. 14.30-17.00. Líkt og undanfarin ár verður jafnframt í boði að fara á báta og ýmis útileiktæki í boði fyrir börnin. Kaffisalan er lokapunktur á annars ánægjulegu sumri  en aðsókn að Hólavatni hefur aldrei verið meiri í sögu sumarbúðanna og dvöldu 252 börn á Hólavatni í sumar og er það aukning um rúm 17% frá fyrra ári. Þetta er því áttunda árið í röð þar sem fjölgar á milli ára og erum við afar þakklát fyrir vaxandi aðsókn og alla þá vini og velunnara sem á undanförnum árum hafa stutt við uppbyggingu staðarins og lagt starfið þar í Guðs hendur í bæn. Næg verkefni eru framundan og því mikilvægt að vel takist til með fjáröflun á kaffisölunni og að sem flestir leggi leið sína á Hólavatn á sunnudag. Verðið á kaffisölu er 1.500 kr. fyrir fullorðna, 500 kr. fyrir 6-12 ára og frítt fyrir börn á leikskólaaldri. Ekki er hægt að taka við greiðslukortum og því þarf að greiða með reiðufé.

Í sumar var fimmtugasta sumarið sem börn dvelja við Hólavatn og í júní á næsta ári fagna sumarbúðirnar því 50 ára afmæli og standa vonir okkar til að hægt verði að fagna þeim áfanga með viðeigandi hætti og er stjórn Hólavatns farin að leggja drög að nýju útileiktæki sem yrði stærra og skemmtilegra en allt sem áður hefur sést í sumarbúðunum. Til að það verði að veruleika þurfa margir að leggjast á árarnar og með sameiginlegu átaki væri hægt að færa Hólvetningum stórkostlega gjöf á þeim tímamótum.