Í dag komu 34 einstaklega hressir drengir á Hólavatn. Þegar drengirnir komu á staðinn var farið yfir helstu reglur ásamt því að raða niður í herbergin. Að sjálfsögðu var passað uppá að vinir fengju að vera saman í herbergjum. Gaman er að segja frá því að hér á Hólavatni heita herbergin eftir sveitabæjunum í kring. Drengirnir fengu smá tíma til að koma sér fyrir en fóru svo í göngu um svæðið þar sem þeir sáu það helsta sem þeir geta valið um í frjálsum tíma.

Hádegismatur var kl. 12 þar sem flestir drengirnir borðuðu vel. Þá var frjáls tími í smá stund þar sem drengirnir gátu prófað trampólínið, fótboltaspilið, hjólabílana, kannað umhverfið og fleira. Síðan fóru þeir allir með foringjunum upp í laut í leiki. Þá var kaffitími þar sem farið var yfir mikilvægustu reglurnar. Allavega að mati margra drengjanna, en það eru bátareglurnar. Hér á Hólavatni eru bátar ekki opnaðir fyrr en eftir að bátareglur hafa verið kynntar og í kjölfarið voru bátarnir svo opnaðir og lang flestir drengjanna fóru út á bát. Seinni partinn var einnig boðið uppá mót í fótboltaspilinu, þar var einnig góð þátttaka.

Eftir mikla hreyfingu og útiveru voru svangir drengir sem mættu í kvöldmat. Þeir borðuðu mjög vel! Þá var boðið uppá smá frjálsan tíma fram að kvöldvöku. Á kvöldvökum syngjum við saman, sjáum leikrit, förum í leiki og svo biðjum við saman. Kvöldvökurnar eru öll kvöldin hér á Hólavatni. Drengirnir í þessum flokk eru sérstaklega hressir og því var kvöldvakan einnig í þeim anda.

Í lok kvöldvökunnar fengu strákarnir svo kvöldhressingu og fengu svo að heyra hugvekju úr Biblíunni.
Eftir það fóru drengirnir að undirbúa sig fyrir svefninn og fengu að vita hver væri bænaforingi herbergisins. En hvert herbergi á sinn bænaforingja sem kemur inn í herbergin á kvöldin og fer í smá leik, segir sögu og biður bænir fyrir svefninn. Þetta er þeirra bænaforingi sem minnir þá á að fara í sturtu, skipta um nærbuxur og drengirnir eiga að geta leitað til ef eitthvað er að. Bænaforinginn er inni í herberjunum á meðan drengirnir sofna og sér til þess að allt gangi vel í herberginu.

Í kvöld voru því mjög þreyttir drengir sem fóru að sofa. Það gekk frekar vel að sofna miðað við fyrsta kvöld en það er alltaf svolítil spenna á fyrsta kvöldi. Smá heimþrá kom upp en læknaðist fljótt með spjalli og nærveru.

Við bíðum spennt eftir morgundeginum og minnum á að símatími er á Hólavatni frá kl. 11-12. Símanúmerið er: 4631271

kv.
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn

Hádegismatur: Skyr og ofnbakað brauð með osti.
Kaffitími: Nýbakað súrdeigsbrauð, appelsínur og kex.
Kvöldmatur: Hakk og spagettí ásamt salati.
Kvöldkaffi: Appelsínur og epli.