Í dag komu 34 hressir krakkar á Hólavatn. Þegar krakkarnir komu á staðinn var farið yfir helstu reglur ásamt því að raða niður í herbergin. Að sjálfsögðu var passað uppá að vinir fengju að vera saman í herbergjum. Gaman er að segja frá því að hér á Hólavatni heita herbergin eftir sveitabæjunum í kring. Stelpurnar eru á neðri hæðinni og strákarnir á efri hæðinni. Krakkarnir fengu smá tíma til að koma sér fyrir en fóru svo í göngu um svæðið þar sem þeir sáu það helsta sem þeir geta valið um í frjálsum tíma.

Hádegismatur var kl. 12 þar sem flestir krakkarnir borðuðu vel. Þá var frjáls tími í smá stund þar sem krakkarnir gátu prófað trampólínið, fótboltaspilið, hjólabílana, kannað umhverfið og fleira. Síðan fóru þeir allir með foringjunum upp í laut í leiki. Þá var kaffitími og farið var yfir bátareglur. Eftir það var boðið uppá báta, Stinger og vinabönd. Hér á Hólavatni eru bátar ekki opnaðir fyrr en eftir að bátareglur hafa verið kynntar.

Eftir mikla hreyfingu og útiveru voru svangir krakkar sem mættu í kvöldmat. Þá var boðið uppá smá frjálsan tíma fram að kvöldvöku. Á kvöldvökum syngjum við saman, sjáum leikrit, förum í leiki og svo biðjum við saman. Kvöldvökurnar eru öll kvöldin hér á Hólavatni. Margir krakkar í flokknum hafa komið áður og því var vel tekið undir í söng á kvöldvökunni, sem hjálpar einnig þeim sem nýjir eru.

Í lok kvöldvökunnar fengu krakkarnir að heyra söguna Þú ert frábær og útskýringu á því að þau eru öll frábær eins og þau eru, enda sköpuð af Guði. Þá hófst leitin að bænaforingjunum en ég var með náttbuxur allra bænaforingja í poka og hvert herbergi fékk náttbuxurnar bænaforingjans síns. Þá fóru herbergin út að leita að foringjunum og finna út hver þeirra bænaforingi væri. En hvert herbergi á sinn bænaforingja sem kemur inn í herbergin á kvöldin og fer í smá leik, segir sögu og biður bænir fyrir svefninn. Þetta er þeirra bænaforingi sem minnir þá á að fara í sturtu, skipta um nærbuxur og drengirnir eiga að geta leitað til ef eitthvað er að. Bænaforinginn er inni í herberjunum á meðan drengirnir sofna og sér til þess að allt gangi vel í herberginu. Eftir það fóru krakkarnir að undirbúa sig fyrir svefninn. Eeeen þá var haldið svakalegt náttfatapartý sem endaði með leikriti og ís.

Í kvöld voru því mjög þreyttir krakkar sem fóru að sofa. Það gekk frekar vel að sofna miðað við fyrsta kvöld en það er alltaf svolítil spenna á fyrsta kvöldi. Heimþrá kom upp hjá nokkrum drengjum en hjá flestum læknaðist það fljótt með spjalli og nærveru.

Við bíðum spennt eftir morgundeginum og minnum á að símatími er á Hólavatni frá kl. 11-12. Símanúmerið er: 4631271

kv.
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn

 

Hádegismatur: Skyr og ofnbakað brauð með osti.
Kaffitími: Nýbökuð jógúrtkaka og ristað brauð.
Kvöldmatur: Hakk og spagettí ásamt grænmeti.
Kvöldkaffi: Epli og kex.