Jól í júlí!

Þriðji dagur hófst í morgun og það voru hressir krakkar sem fóru á fætur, krakkarnir voru vaktir með jólalögum og starfsmenn heilsuðu með kveðjunni „Gleðileg jól“. Við ákváðum að hafa jól í júlí og litaðist dagurinn aðeins af jólaþema. Þegar krakkarnir komu inn í sal þá beið þeirra jólaskreyttur salur. Eftir morgunmat var smá tími til að ganga frá í herbergjum (sum herbergin nýttu tímann og jólaskreyttu). Síðan var fánahylling og morgunstund sem aftur var úti í góða veðrinu. Eftir morgunstundina fengu krakkarnir frjálsan tíma fram að hádegismat.

Eftir hádegi var haldið jólaball þar sem dansað var í kringum jólatré, sungin jólalög og jólasveinn kíkti í heimsókn, hann sprellaði aðeins og gaf öllum smá nammi í poka. Þá voru skreyttar piparkökur og hlustað á jólatónlist fram að kaffi.

Eftir kaffitímann var boðið uppá sull og fjör í vatninu ásamt öllu því sem Hólavatn hefur uppá að bjóða í útiveru. Eftir fjör dagsins sendum við alla krakka sem fóru í vatnið í sturtu. Við borðuðum kvöldmatinn úti í tilefni sólríka dagsins til að njóta veðursins.

Á kvöldvökunni sem var frekar löng í kvöld var farið í mikið af leikjum og mörg leikrit voru sýnd. Kvöldkaffið var aðeins öðruvísi en venjulega þar sem boðið var uppá „möndlugraut“  of þannig lauk jólunum á Hólavatni.

Eftir langan dag fóru þreytt börn að hátta, pissa, bursta og áttu góða rólega stund inná herbergjum

kv.
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn

Morgunmatur: Morgunkorn, hafragrautur, mjólk, súrmjólk og fleira.
Hádegismatur: Pylsupasta og ofnbakað brauð með osti.
Kaffitími: Sjónvarpskaka, nýbakaðar bollur og piparkökurnar.
Kvöldmatur: Pizza
Kvöldkaffi: Epli og „möndlugrautur“ með kirsuberjasósu eða karamellusósu.