Í gær komu 34 spenntar stelpur á Hólavatn. Þegar þær mættu á staðinn fóru þær inn í sal þar sem starfsfólk kynnti sig, farið var yfir öryggisreglur, stelpurnar kynntu sig og þeim raðað niður í herbergi. Auðvitað var passað uppá að allar vinkonur gætu verið saman í herbergi. Þá fóru stelpurnar með dótið sitt í herbergin og komu sér fyrir. Öll herbergin á Hólavatni heita eftir sveitabæjum sem eru hér í nágreninu. Eftir smá tíma var síðan farið í göngutúr þar sem svæðið var kynnt fyrir stelpunum. En flokkurinn er skemmtilega blandaður af stelpum sem hafa komið oft á Hólavatn, stelpum sem hafa komið 1-2 áður og stelpum sem er á Hólavatni í fyrsta skiptið. Síðan fengu stelpurnar smá frjálsan tíma fram að hádegismat.

Hádegismatur var kl. 12 þar sem flestar stelpurnar borðuðu vel. Þá var frjáls tími í smá stund þar sem stelpurnar gátu prófað trampólínið, fótboltaspilið, hjólabílana, kannað umhverfið og fleira. Síðan fóru þær allar með foringjunum upp í laut í leiki. Þá var kaffitími og farið var yfir bátareglur, sem eru mikilvægustu reglurnar að mati einhverra stelpna í flokknum. En ekki er boðið uppá báta fyrr en þær hafa verið sérstaklega kynntar. Eftir það var boðið uppá báta, útiveru, teikna og vinabönd.

Eftir mikla hreyfingu og útiveru voru svangar stelpur sem mættu í kvöldmat. Þá var boðið uppá smá frjálsan tíma fram að kvöldvöku. Á kvöldvökum syngjum við saman, sjáum leikrit, förum í leiki og svo biðjum við saman. Kvöldvökurnar eru öll kvöldin hér á Hólavatni. Síðan var boðið uppá kvöldkaffi.

Þá hófst leitin að bænaforingjunum en ég (Telma Ýr) var með náttbuxur allra bænaforingja í poka og hvert herbergi fékk náttbuxurnar bænaforingjans síns. Þá fóru herbergin út að leita að foringjunum og finna út hver þeirra bænaforingi væri. En hvert herbergi á sinn bænaforingja sem kemur inn í herbergin á kvöldin og fer í smá leik eða spjallar, segir sögu og biður bænir fyrir svefninn. Þetta er þeirra bænaforingi sem minnir stelpurnar á að fara í sturtu, skipta um nærbuxur og stelpurnar eiga að geta leitað til ef eitthvað er að. Bænaforinginn er inni í herberjunum á meðan stelpurnar sofna og sér til þess að allt gangi vel í herberginu. Eftir það fóru krakkarnir að undirbúa sig fyrir svefninn. Þegar að allar voru komnar inn á herbergi fór eitthvað grunnsamlegt að gerst, ég kallaði hvern og einn bænaforingja fram og allt í einu heyrist í öllum foringjunum „ÞAÐ ER KOMIÐ NÁTTFATAPARTÝ“ þá var haldið svakalegt náttfatapartý þar sem var mikið sungið, dansað og farið í Limbó. Náttfatapartýið endaði svo með leikriti, ís og smásögum.

Í gærkvöldi voru því mjög þreyttar stelpur sem fóru að sofa. Það gekk frekar vel að sofna miðað við fyrsta kvöld en það er alltaf svolítil spenna á fyrsta kvöldi. Heimþrá kom upp hjá nokkrum stelpum en læknaðist fljótt með spjalli og nærveru.

Við bíðum spennt eftir því hvað þessi dagur mun bjóða uppá og minnum á að símatími er á Hólavatni frá kl. 11 – 12. Símanúmerið er: 4631271. Þá er hægt að tala við forstöðumenn og fá upplýsingar um stelpuna ykkar.

kv.
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn

 

Hádegismatur: Skyr og ofnbakað brauð með osti.
Kaffitími: Nýbökuð jógúrtkaka og ávextir.
Kvöldmatur: Hakk og spagettí ásamt tómatsósu, gúrku, káli og papriku.
Kvöldkaffi: Jógúrtkaka, epli, appelsínur og kex.