Þriðji dagur hófst í morgun við lög úr Litlu hafmeyjunni. Það voru hressar stelpur sem fóru á fætur spenntar fyrir nýjum degi á Hólavatni. Stelpurnar fóru í morgunmat og svo var smá tími til að ganga frá í herbergjum. Eftir það var fánahylling og morgunstund. Eftir morgunstundina var önnur umferð leikin í Quidditch fram að hádegismat. Hér hefur verið mikil rigning í dag svo sumar stelpurnar voru vel blautar þegar þær komu til baka í hádegismat.

Eftir hádegi var farið í staffabolta. Þá leika allar þær stelpur sem vilja á móti starfsfólki í fótbolta. Leikurinn var æsispennandi en þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum skoruðu stelpurnar tvö mörk í röð og unnu því starfsfólkið. Fyrst að stelpurnar voru þegar orðnar blautar var boðið uppá að vaða, synda í vatninu, báta og sturtur fram að kaffitíma.

Eftir kaffitímann var haldin hæfileikasýning þar sem stelpurnar sýndu allskonar atriði. Til dæmis dans, leikrit, leiki, töfrabrögð, söng, Harry Potter Meme´s og grín af foringjunum. Þá var borðaður kvöldmatur og svo frjáls tími fram að kvöldvöku. Á kvöldvökunni voru sungin lög, sýnt leikrit og stelpurnar heyrðu sögu um það að þær eru fullkomnar eins og þær eru. Það skiptir ekki máli hvað öðrum finnst um þær þar sem þær eru skapaðar af Guði og hann gerir engin mistök. Þær eru alveg eins og þær eiga að vera, með mismunandi útlit, getu og hæfileika.

Eftir kvöldvökuna var síðan opið flæði. Stelpurnar gátu farið í vinabandagerð, spil, Varúlf, slakað á saman og fengið sér kvöldkaffi.

Eftir langan blautan dag fóru þreyttar stelpur að hátta, pissa, bursta og eru núna að eiga góða rólega stund inná herbergjum með bænaforingjunum sínum.

Við minnum á að hægt er að skoða myndir úr flokknum hér:

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157715102045708

kv.
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn

Morgunmatur: Morgunkorn, hafragrautur, mjólk, súrmjólk og fleira.
Hádegismatur: Grjónagrautur, kanill, rúsínur og appelsínur.
Kaffitími: Súkkulaðikaka, ávextir og kex.
Kvöldmatur: Pizza
Kvöldkaffi: Pizza, kex og ávextirr