IMG_0920

Góðan dag!

Fyrsti dagurinn gekk vel en mikil spenna var í drengjunum. Saman eru komnir 33 drengir sem ætla að njóta alls þess sem Hólavatn hefur upp á að bjóða næstu vikuna. Flokkurinn byrjaði aðeins brösulega en vegna veðurs seinkaði morgunfluginu svo þeir drengir sem komu að sunnan með flugi komu aðeins seinna.

Þegar drengirnir mættu á staðinn kynnti starfsfólkið sig og við fórum yfir nokkrar reglur og röðuðum þeim svo í herbergi. Engar áhyggjur kæru foreldrar, allir vinir eru saman í herbergi. Sumir komu víst einir á svæðið en voru strax búnir að eignast félaga þegar kom að því að raða.

Drengirnir komu sér svo fyrir og könnuðu svæðið. Gaman er að segja frá því að hér er mikil blanda að drengjum. Sumir hafa komið oft á Hólavatn og þekkja staðinn mjög vel. Aðrir hafa farið í aðrar sumarbúðir og enn aðrir eru að stíga sín fyrstu sumarbúðaskref. Hér voru því mjög góð blanda af drengjum sem kannaði svæðið fram að hádegismat. Í hádegismat var skyr og brauð og drengirnir borðuðu flestir vel. Eftir hádegismat var svo farið upp í laut og farið í leiki. Þar fékk starfsfólkið tækifæri til þess að læra nöfn barnanna og börnin tækifæri til þess að kynnast starfsfólkinu.

Eftir lautina var komið að því að drengirnir mættu fara ofaní vatnið! Mjög margir sigruðu sjálfan sig og fóru ofan í vatnið þrátt fyrir að finnast það mjög kalt. Aðrir léku sér í öðru eins og Stinger, rólunum, trampólíninu, hengirúmunum eða slökuðu á. Við fengum okkur kaffi úti í góða veðrinu en boðið var uppá bananabrauð, kryddbrauð, kex og ávexti. Þá var farið yfir mikilvægustu reglur flokksins að mati sumra. En það eru Bátareglurnar og hér á Hólavatni opnum við ekki báta fyrr en búið er að fara yfir Bátareglurnar. Í kjölfarið voru bátarnir opnaðir og lang flestir fóru í bátsferð og sumir margar.

Í kvöldmatinn var Hakk og spegettí. Drengirnir borðuðu mjöög vel enda búnir að vera á fullu. Um þetta leiti var farið að bera aðeins á heimþrá og við ræddum um að það væri eðlilegt. Það er gott að eiga fjölskyldu til að sakna og eðlilegt að ef einstaklingur er óvanur að gista annarstaðar að vera óöruggur. Kæru foreldrar þið megið samt vita það að hér er enginn píndur og stærsta markmiðið er að öllum líði vel. Við höfum því lágan þröskuld og hringjum í ykkur ef heimþráin eða annað veldur barninu frekari vanlíðan. Svo engar fréttir frá okkur þýðir að það gangi vel með ykkar dreng. 🙂

Kvöldvakan var svo á sínum stað og var mikið sungið og hlegið ásamt því að heyra hugvekju og biðja saman. Í lokin var svo boðið uppá kvöldhressingu, kex og ávexti.

Þegar drengirnir voru komnir inn í herbergi komu bænaforingjarnir inn til þeirra en það er foringi/foringjar sem sér um herbergishópinn sinn alla vikuna. Foringinn er til staðar ef eitthvað kemur uppá, kemur þeim í ró á kvöldin og passar að öllum líði vel.  Þetta kvöld voru bænaforingjarnir lengi inná bænaherbergjunum, til að passa uppá að allir drengirnir væru öryggir og gætu örugglega sofnað á nýjum stað. Inni á bænaherberjunum eru lesnar margar sögur, farið í stutta leiki, spjallað og beðið ásamt því að stundum er spiluð tónlist, saga eða jafnvel sungið fyrir þá. Drengirnir voru snöggir að sofna enda mikið spennufall.
Nóttin gekk ágætlega, nokkur tár á hvarmi en ekkert stórvægilegt. Ekkert sem reynda, flotta starfsfólkið hér ræður ekki við.

Drengir sem eru fljótir að sofna eru margir hverjir líka fljótir að vakna… Hér voru fyrstu drengir vaknaðir mjög snemma eða á meðan tölustafurinn 6 var ennþá á klukkunni. Flestir lásu syrpur eða spiluðu þangað til fleiri vöknuðu og fóru í morgunmat.

Þá fóru drengirnir í tiltekt í herbergjunum sínum, út í fánahyllingu og á morgunstund. Eftir það hófst æsispennandi fótboltamót úti á velli sem mun halda áfram seinna. Þeir sem ekki höfðu áhuga á því að taka þátt fóru í skotbolta.

Þegar drengirnir komu til baka þá tók við smá rólegur tími fram að hádegismat þar sem boðið var upp á teiknisamkeppni og perlur ásamt frjálsum leik. Í hádegismatinn var púrlaukssúpa og nýbakaðar brauðbollur. Núna eru drengirnir að gera sig tilbúna en Hóló-olympics (eða sérútbúna ólympíuleika fyrir Hólavatn). En þá er hvert herbergi saman sem lið svo stuðningur við hina í herberginu er mikill.

Við bíðum spennt eftir framhaldinu og minnum á að símatími er á Hólavatni frá kl. 11 – 12. Símanúmerið er: 4631271. Þá er hægt að tala við forstöðumenn og fá upplýsingar um drenginn ykkar.

Þangað til á morgun.
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn.