IMG_1035

Góðan dag!

Síðan í gær hafa drengirnir farið í Hóló-olympics (eða sérútbúna ólympíuleika fyrir Hólavatn). Þar kepptu herbergin saman og gaman var að sjá strákana kynnast betur og hvetja aðra áfram. Eftir það var kaffitími þar sem boðið var uppá eplaköku og ávexti. Svo var í boði að fara í vatnið, út á báta og í Stinger.

Í kvöldmatinn var steiktur fiskur sem rann ljúflega ofan í drengina. Síðan fóru drengirnir í smá frjálsan tíma. Eftir það var haldið á kvöldvöku þar sem drengirnir fengu banana í kvöldkaffi í lokin áður en þeir voru sendir að hátta, pissa og bursta. Sumum drengjunum fannst þeir fara að sofa frekar snemma og hefðu viljað fá kex í kvöldkaffið. En það sem þeir vissu ekki að stuttu seinna ómaði tónlist um húsið og foringjarnir buðu öllum drengjum í náttfatapartý. Þar var mikið sungið, dansað, farið í leiki, horft á leikrit, borðað ís og hlustað á sögu. Það voru því þreyttir en sælir drengir sem fóru að sofa í gærkvöldi.

Í morgun voru drengirnir vaktir með tónlist úr Konungi ljónanna. Þeir fóru í morgunmat, gengu frá í herberjum, fóru út í fánahyllingu og á morgunstund. Eftir hana var riðillinn kláraður í fótboltanum. 🙂 Þá tók við frjáls tími í smá stund fram að hádegismat. Í hádeginu borðuðu drengirnir vel en þá var boðið uppá pasta. Núna eftir hádegið hafa drengirnir skemmt sér einstaklega vel en sólin skín og hér eru um 24 gráður í skugga. Við buðum því uppá að synda í vatninu ásamt því að búa til vatnsrennibraut í brekkunni. Þetta fannst flestum mjög spennandi og við skemmtum okkur mjög vel. Núna eru drengirnir úti í kaffitíma. Þar eru þeir að fá sér nýbakaða kanilsnúða, hafraklatta og ávexti. Við erum að reyna að gefa þeim sem mest að drekka núna þar sem hitinn er mikill 🙂 Hér er einnig komið „nýtt“ hlutverk fyrir starfsmenn en starfsmenn breytast reglulega yfir daginn í sólarvarnarlögreglu til þess að passa upp á að þeir sólbrenni ekki.

Við minnum svo á myndasíðuna okkar: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157719499875793/with/51296034550/

Myndirnar koma inn á kvöldin svo það bætast við fleiri í kvöld.

Þangað til á morgun,
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn.