Góðan dag!
Í gær var sannkallaður veisludagur en drengirnir kepptu við starfsfólkið í fótbolta og okkur þykir leitt að tilkynna að þeir unnu okkur! 😉 Þeir fengu síðan grjónagraut að borða. Eftir hádegi var frjáls tími og svo hófst stór ratleikur sem innihélt bæði fjölbreyttar þrautir og tuskuveruna. En leikurinn var mjög skemmtilegur og strákarnir nutu sín mjög vel. Átta drengir náðu að ljúka öllum þrautunum og forðast tuskuveruna á ákveðnum tíma. Þrautirnar reyndu á styrk, snerpu, minni og margt fleira. 😀
Drengirnir fengu svo veislu kaffitíma eða nýbakaða súkkulaðiköku. Gaman er að segja frá því að hér var einnig afmælisbarn þennan dag sem fékk bæði kórónu, söng, kerti og fleira í kaffinu.
Þá tóku við bátar, útivera, perlur (sem hafa verið mjög vinsælar þessa vikuna) ásamt því að fara í sturtu og græja sig fyrir kvöldið. Þó hófst veislukvöldmatur við uppdekkuð borð þar sem boðið var uppá hamborgara ásamt meðlæti.
Eftir veisluna tók við veislukvöldvaka með mörgum leikritum, innilegum Hólavatnssöngvum, hugvekju, bæn og mikilum hlátri. Þegar henni lauk var drengjunum boðið út að varðeldi að grilla sykurpúða þar sem einnig var boðið uppá kex og ávexti.
Þreyttir og sáttir drengir fóru að sofa eftir mikið fjör. 🙂
Í morgun voru nokkrir mættir í perlupartý fyrir kl. 8 en það er orðinn vani hér meðal morgunhana. Þegar búið var að vekja restina af drengjunum fengu þeir sér morgunmat og fóru svo að pakka niður. Þá héldu þeir af stað á næsta sveitabæ þar sem Hólakirkja er staðsett og áttu góða stund þar. 🙂 Þegar þeir komu til baka fengu þeir pylsur í góða veðrinu og fóru á lokastund sem er í þessum orðum að ljúka. Drengirnir geta svo leikið smá stund úti áður en þeir skella sér upp í rútu og við höldum af stað í Sunnuhlíð.
Við þökkum eftirminnilegum, hressum og skemmtilegum drengjum fyrir vikuna og vonumst til að allir drengir fari heim með einkunnarorð Hólavatns: Ró í hjarta og gleði í sál. Við hlökkum til að sjá sem flesta aftur hér á Hólavatni.
Kær kveðja,
Telma Ýr og Bogi, forstöðumenn.
P.S. Við minnum á að allir óskilamunir fara í Sunnuhlíð.
Myndasíðan:
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157719499875793/with/51295207608/