Góðan dag!

Fyrsti dagurinn gekk vel en mikil spenna var í börnunum. Saman eru komnir 34 spennt börn sem ætla að njóta alls þess sem Hólavatn hefur upp á að bjóða næstu vikuna. Kynjahlutfallið er mjög skakkt en hér eru um þrisvar sinnum fleiri stelpur en strákar. En það hefur ekkert að segja varðandi dagskrá og slíkt. Veðrið í gær setti svolítinn svip á dagskránna en hér var mikill vindur og því ekki hægt að fara á báta eða í vatnið.

Þegar börnin mættu á staðinn kynnti starfsfólkið sig og við fórum yfir nokkrar reglur og röðuðum svo í herbergi. Engar áhyggjur kæru foreldrar, allir vinir og vinkonur (af sama kyni) eru saman í herbergi og herbergin eru kynjaskipt. Sum komu ein á svæðið en sum voru strax búnir að eignast félaga þegar kom að því að raða en önnur kynntust herbergisfélögunum eftir það.

Börnin fundu herbergin sín og komu sér svo fyrir ásamt því að kanna svæðið. Síðan var farið í smá göngu um þar sem foringjarnir sýndu þeim svæðið betur. Í hádegismat var skyr og brauð og börnin borðuðu flest vel. Eftir hádegismat var svo farið upp í laut og farið í leiki. Þar fékk starfsfólkið tækifæri til þess að læra nöfn barnanna og börnin tækifæri til þess að kynnast starfsfólkinu.

Þegar þau komu til baka var kaffitími þar sem börnin fengu bananaköku og kex. 🙂 Þá tók við frjáls tími fram að kvöldmat. Boðið var upp á leikinn mafíu, vinabönd, perlur, fótboltaspil, hjólabíla og fleira.

Í kvöldmatinn var hakk og spagettí sem rann ljúflega niður en eftir það fengu börnin svo aðeins að slaka á fram að Kvöldvöku. Á Kvöldvöku er mikið sungið og hlegið ásamt því að börnin fá að heyra hugvekju og biðja saman. Í lokin er venjulega boðið uppá kvöldhressingu en ekki í gær! Í lok kvöldvökunnar voru foringjarnir horfnir og hvert herbergi fékk sokk bænaforingjans síns og þurftu að finna bænaforingjana ásamt því að finna út hver ætti sokkinn. Þegar því lauk þá héldu börnin að þau væru að fara að sofa… En þá varð náttfatapartý 😀 Þar var mikið sungið og dansað ásamt því að heyra sögu, sjá leikrit og fá ís.

Það voru því mjög þreytt börn sem fóru að sofa í gær. Lang flest börnin voru sofnuð snemma og lítil sem engin heimþrá er í hópnum sem er mjög opinn og hress. 🙂

Við vöktum börnin kl. 8.30 í morgun og þá var enn fín ró í húsinu svo börnin hafa náð að hvílast vel. Þau fóru svo í morgunmat og eftur það var tiltekt í herbergjunum, fánahylling og morgunstund. Eftir það hófst æsispennandi Hóló-olympics (eða sérútbúna ólympíuleika fyrir Hólavatn). En þá er hvert herbergi saman sem lið svo stuðningur við hina í herberginu er mikill og hverbergisfélagar kynnast enn betur. 🙂

Við bíðum spennt eftir framhaldinu og minnum á að símatími er á Hólavatni frá kl. 11 – 12. Símanúmerið er: 4631271. Þá er hægt að tala við forstöðumenn og fá upplýsingar um börnin ykkar.

Einnig er myndasíða þar sem myndir úr flokknum koma inn hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157719544136552

Þangað til á morgun.
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn.