Fjórði flokkur sumarsins hófst 27. júní og stendur til 1. júlí með fullum flokki af 9-11 ára stelpum sem koma allst staðar að af landinu.
Kvöldvökur einkennast af fjörugum söng og góðum undirtektum stúlknanna.
Fyrsti dagurinn fór nú í að kynnast staðnum þótt margar stelpurnar hafi verið áður á Hólavatni. Farið var í leiki uppi í laut og reynt að læra nöfn með ýmsum leikjum ásamt öðru fjöri.
Á morgunstundum og kvöldstundum er auk þess fræðsla hugleiðing um Jesú og trúna. Meðal annars var fjallað um hvernig gott getur verið að trúa Guði fyrir þungum „steinum“ okkar sem við gætum haft á bakinu. Jesús getur tekið áhyggjur, kvíða og uppgjöf frá okkur og gefið okkur hvíld (Matt 11:28).

Loks gafst tækifæri til að fara í vatnið á þriðjudeginum og ríkti mikil kátína með það, það var stokkið ofan í, vaðið og buslað í rétt um 18°C en undanfarið hefur verið töluvert kaldara og því var þetta kærkomið veður.

Kvöldvaka með leikritum frá stelpunum sjálfum var á miðvikudag, það var mikið hlegið. Við skelltum í svaka partý eftir að búið var að senda þær í rúmið, flestar stukku upp úr rúmunum við dynjandi Bluetooth-hátalara tónlistina á eftir dansandi foringjum – sumar höfðu óvart sofnað og þurftu 5 mínútur til að fatta hve gaman þetta væri. Þá var dansað og ýmsar þrautir gerðir og jafnvel var dansgólfið frítt fyrir alls konar skop og sprell.

Á fimmtudag var kallað í „staffabolta“, þar sem 4 starfsmenn kepptu við um 30 stelpur – það fór ekki vel…fyrir starfsfólkið. Eftir hádegi var stokkið í vatnið fyrir þá sem vildu, vaðið og synt – í 18-19°C hita. Útikaffitími var tilraun til að toppa daginn – en erfitt er að keppa við aðdráttarafl vatnsins, en heimabakaðar sjónvarpskökur og eplakökur ásamt ávöxtum og kexi rann ljúflega niður með djús. Veislukvöldið virðist hafa staðið undir væntingum stelpnanna en þar voru leikrit, sögur af Jesú, leikir og …kvöldsöngurinn auðvitað.

Gaman er að sjá hvernig sumar stelpur sem glímdu við heimþrá fyrsta daginn tóku þroskakipp eftir að vatnið opnaði fyrir busl á þriðjudag – það var greinileg breyting hjá sumum þeirra, það virðist vera að öll heimþrá sé horfin á braut. Þær eru nú allar að skemmta sér konunglega – enda hjálpar veðrið vel til. Margar hafa eignast nýjar vinkonur.

Nýjar myndir eru inn á:
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720300170815

P.s. Starfsfólk Hólavatns þakkar fyrir lánið á stúlkunum þessa daga, það er búið að vera yndislegt að vera með þeim og sjá þær njóta sín hér á Hólavatni.
F.h. starfsfólksins á Hólavatni,
Laufey og Sigurður Bjarni, forstöðuhjón