Mánudaginn 19. júní mættu 35 mjög spenntar stelpur hingað á Hólavatn! Þegar komið var út úr rútunni tókum við strax eftir því að mikil jákvæðni, eftirvænting og gleði ríkti í hópnum en hann samanstóð af gríðarlegum flottum stelpum og foringjum sem voru tilbúin í ævintýri vikunnar!

Eftir að búið var að fara yfir helstu reglurnar á staðnum og stelpurnar komnar með herbergi, þar sem allar vinkonur fengu að sjálfsögðu að vera saman í herbergi, var boðið upp á dýrindis hádegismat. Þegar honum var lokið var haldið upp í Laut, þar sem farið var í hópeflis og kynningarleiki, þar sem stelpurnar kynntust hvor annarri og foringjum flokksins. Stelpurnar voru allar til í að vera með í leikjunum og til í að kynnast hvor annarri sem var mjög gaman að sjá! Við fundum að mikil spenna var fyrir því að prófa bátana svo eftir kaffitímann voru þeir opnaðir en á Hólavatni eru hjólabátar og árabátar en einnig prófuðu nokkrar að vaða sem vakti mikla lukku! Einnig var í boði að hlaupa um og skoða nærumhverfi Hólavatns sem margar nýttu sér.

Þegar kvöldmatnum lauk var blásið til kvöldvöku þar sem var rífandi stemning, lög sungin og foringjar sýndu leikrit sem sló heldur betur í gegn! Eftir kvöldvökuna var haldið í háttinn eftir viðburðarríkan og skemmtilegan dag, þar sem komin var ró í húsið um kl. 23.

Hlýjar kveðjur frá Hólavatni,

Þórhildur, forstöðukona