Á þriðjudagsmorgni vöknuðu stelpurnar kl. 8 og höfðu flestir, ef ekki allar, sofið mjög vel eftir viðburðarríkan fyrsta dag hér á Hólavatni! Eftir morgunmat var haldið út á fánastöng á fánahyllingu en hér er sú hefð að flagga saman og syngja fánasönginn. Á morgunstundinni fengu stelpurnar að heyra um Sr. Friðrik Friðriksson, sem stofnaði KFUM og KFUK á Íslandi. Eftir hana var frjáls tími þar sem tækifæri gafst að fara út á bát, gera vinabönd og leika úti og inni. Svolítið kalt var í veðri og væg rigning en margar létu það ekki á sig fá og klæddu sig bara vel!
Þegar hádegismatnum lauk fórum við saman í ævintýraleik þar sem skemmtilegir karakterar höfðu komið sér fyrir í skóginum en hlutverk stelpnanna var að hlaupa á milli þeirra og leysa þrautir. Stelpurnar voru mjög til í að taka þátt og létu rigninguna og kuldann ekkert trufla sig, ótrúlega flottur hópur hér á ferð! Þegar kaffitímanum lauk tók svo við hárgreiðslukeppni og tískusýning þar sem stelpurnar sýndu hæfileika sína. Um kvöldið var svo hefðbundin Hólavatnskvöldvaka en nokkrar stelpur höfðu tekið upp á því að búa til leikrit sem þær óskuðu sérstaklega eftir að fá að sýna á kvöldvökunni sem var auðvitað sjálfsagt mál! Kvöldvakan heppnaðist ótrúlega vel og mikil stemning í hópnum. Eftir kvöldvökuna voru stelpurnar sendar inn í rúm en stuttu seinna komu foringjarnir hlaupandi inn ganginn með tónlist, það var komið náttfatapartý!! Það var dansað og farið í limbó og partýið endaði síðan á foringjaleikritum og Sun Lolly. Mjög langur en algjörlega frábær dagur kláraðist og þvílík orka og gleði í hópnum! Allar í húsinu voru sofnaðar kl. 23:30.
Kærar kveðjur héðan frá Hólavatni,
Þórhildur forstöðukona