Dagur 3

Á miðvikudagsmorgni vöknuðu stelpurnar kl. 8:00 en langflestar sögðust hafa sofið afar vel. Eftir morgunmat og morgunstund var stelpunum boðið upp á að fara á báta og gera vinabönd en afar kalt var í veðri og því höfðu margar það notalegt innandyra. Þegar hádegismatur var búin fóru stelpurnar í leik sem heitir Hóló Olympics en í honum var boðið upp á ýmsar keppnir eins og þrautabraut, púslþraut, hjólabílakeppni og fleira. Stelpurnar stóðu sig mjög vel og tóku allar þátt þrátt fyrir að veðurspáin sýndi aðeins 3. stiga hita. Eftir kaffitímann var haldin hæfileikasýning þar sem stelpurnar fengu tækifæri til að sýna listir sínar en það heppnaðist mjög vel og mörg einstaklega flott atriði fengu að líta dagsins ljós! Hefðbundin dagskrá tók svo við, svo sem kvöldmatur og kvöldvaka og allar voru sofnaðar kl. 23.

Dagur 4

Stelpurnar voru vaktar á hefðbundum tíma, kl. 8:00, en síðasti heili dagurinn hér á Hólavatni kallast Veisludagur. Sólin lét sjá sig og hitastigið hafði snarbreyst en mælirinn sýndi heilar 18 gráður sem gladdi okkur mikið! Í kjölfarið var ákveðið að nýta veðrið eins og hægt væri en eftir morgunmat og morgunstund fengu stelpurnar að vaða í vatninu. Einnig voru þær allar hvattar til að leika eins mikið úti og þær gætu sem langflestar tóku mjög vel í enda hafði verið ansi kalt síðustu daga. Þegar hádegismatnum lauk skoruðu foringjar flokksins á stelpurnar í fótbolta og leikurinn endaði með 3-1 sigri stelpnanna og greinilega miklir fótboltahæfileikar þar á ferð! Stelpurnar sýndu líka hversu góðar þær eru að vinna saman sem gaman var að sjá! Um leið og leiknum lauk var haldið til baka og allar fengu að vaða og hoppa í vatnið en mikil spenna var búin að myndast fyrir því! Langflestar ef ekki allar fóru út í vatnið og sumar léku þær sér margar hverjar í vatninu í allt að 1 og ½ tíma! Kaffitíminn var hafður úti og því var engin þörf á að fara inn úr góða veðrinu! Kl. 19:30 hófst veislukvöldverður þar sem boðið var upp á dýrindis hamborgara og stelpurnar borðuðu með bestu lyst. Stuttu seinna hófst svo veislukvöldvakan þar sem foringjar sýndu hvert leikritið á fætur öðru og stelpurnar skemmtu sér ótrúlega vel! Kvöldið endaði svo á að grillaðir voru sykurpúðar niðri við vatn og allar voru sofnaðar um 00:00. Virkilega góður og skemmtilegur dagur að baki!

Á morgun er svo brottfarardagur en við, starfsfólkið hér á Hólavatni þökkum stelpunum innilega fyrir samveruna! Það var ótrúlega gaman að kynnast þessum flottu stelpum sem stóðu sig svo vel en margar þeirra voru að koma í fyrsta skipti í sumarbúðir! Við vonum að sjálfsögðu að við sjáum þær sem flestar að ári!

Rútan er svo væntanleg í Sunnuhlíð á morgun, föstudag kl. 15.

Kærar kveðjur,

Þórhildur, forstöðukona