Það er erfitt að trúa því að fyrir bara nokkrum dögum hafi fjórði flokkur verið á leið með rútu til Hólavatns – tíminn hefur liðið hratt. Sumir krakkanna voru að koma í fyrsta skipti og aðrir höfðu dvalið áður í sumarbúðunum. Dagurinn var fallegur, vatnið spegilslétt og sólin skein. Farangurinn var borinn upp á veröndina og allir settust inn í matsal til að kynnast starfsfólki, heyra um reglur staðarins og skipulag dagsins. Það var skemmtilegt að geta boðið upp á að fara á bátana sem eru hjólabátar, kanó og árabátur. Síðan var aðeins vaðið og buslað í vatninu enda einn af betri dögunum sem búist var við. Síðar var farið í marga hópaleiki upp í lautinni á hæðinni fyrir ofan húsið til að kynnast betur. Glaðir og svangir krakkar komu til baka og fengu eitthvað nýbakað úr eldhúsinu, eins og stundum var í flokknum. Hvert kvöld var svo haldin svokölluð kvöldvaka þar sem er sungið, farið í leiki, leikin leikrit og hlustað á hugvekju úr Biblíunni.

Starfsfólk Hólavatns er sammála um að þetta hafi verið viðburðarríkur flokkur með duglegum og skemmtilegum krökkum. Þegar það var frjáls tími léku margir sér úti í kassabílum, körfubolta, trampólíninu, eða slöppuðu af í hengirúmunum hvernig sem viðraði. Þetta voru svo sannarlega duglegir krakkar sem létu smá vind og regn ekki stoppa sig. Inni var hægt að lesa myndasögur, leika með búninga og föndra. Hina dagana var fundið upp á ýmsum atburðum líkt og Hóló Olympics, ratleik, hæfileikakeppni, brjóstsykursgerð, Stinger körfuboltaleik, æsispennandi skotboltakeppni á milli barna og starfsfólks.

Við erum þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir börnunum í þessum flokki og að hafa fengið að kynnast þeim. Það er líka gefandi að heyra hlédræga tjá vilja til þess að koma á næsta ári, því það hafi verið svo skemmtilegt. Það eru meðmæli sem ná athygli okkar. Tíminn hefur flogið, gleðin hefur verið við völd, og við höfum fengið að deila með börnunum kærleiksboðskap Jesú Krists sem á enn sem áður erindi við okkur öll, og hafa þau verið einstaklega athugul í fræðslunni. Takk fyrir okkur.

Með kveðju fyrir hönd starfsfólks Hólavatns í 4.flokki,

Sigurður Bjarni Gíslason, forstöðumaður