Mánudagur 3.júlí

Frábær fyrsti dagur á enda hér á Hólavatni. Dagurinn byrjaði snemma því að rútan lagði á stað kl 9 frá Sunnuhlíð og mættu þar 34 æsispenntar stelpur. Í rútunni var sungið og hlegið og stelpurnar gátu ekki beðið eftir að komast á Hólavatn. Þegar komið var á Hólavatn var farið yfir reglur og stelpunum skipt niður í herbergi og það fengu auðvitað allar að vera með vinkonum sínum í herbergi.

Í hádegismat var skyr og pizzabrauð, sem stelpurnar borðuðu með bestu lyst enda mjög svangar. Eftir hádegismat var farið í allskonar leiki, til þess að kynnast betur. Þegar búið var að leika og labba aðeins um svæðið var kominn tími á kaffi þar sem stelpurnar fengu súkkulaðiköku með kremi og brauð. Að kaffinu loknu var farið niður á bryggju og fengu stelpurnar að prófa bátana og að vaða í vatinu í góða veðrinu. Þetta fannst þeim algjört fjör enda hægt að fara í bæði hjólabát, kanó og árabát, þvílík veisla. Eftir bátafjör úti var kvöldmatur í kvöldmatinn var hakk og spaghettí, stelpurnar borðuðu mjög vel eftir góðan dag og mikla útiveru. Svo var komið að kvöldvöku þar sem var sungið og hlegið, farið í leiki og foringjar skelltu í nokkur skemmtiatriði. Þegar kvöldvakan var búin var svo síðasta verkefni dagsins hjá stelpunum að leita að bænakonunni sinni, þar sem hver og einn foringi er með eitt bænaherbergi út vikuna. Þær hafa það hlutverk að svæfa börnin á kvöldin. Stelpurnar voru ekki lengi að finna sína bænakonu og fóru svo beint að hátta, bursta og pissa fyrir svefn. Þær voru flest allar dauð þreyttar eftir fjörugan dag og sofnuðu fljótt.

 

Takk fyrir að treysta okkur fyrir stelpunum ykkar, þær eru frábærar og við hlökkum mikið til að kynnast þeim betur og eiga góða viku hér saman.

 

Bestu kveðjur Kristrún forstöðukona.