Veisludagar á Hólavatni

Nú þegar styttast fer í annan endan á 7. og síðasta flokks sumarsins á Hólavatni er vel við hæfi að taka saman nokkra hápunkta frá dögunum okkar hérna.

34 börn á aldrinum 11-15 ára eru búin að eiga stund saman í Eyjarfirðinum fagra síðan á mánudag, í veisluveðri og mikilli gleði. Á mánudaginn hófum við leika á því að fara uppí lautina okkar hér rétt fyrir ofan skálann, þar sem farið var í leiki og skemmt sér saman. Þar eftir var farið í að kynnast staðnum – og þá sérstaklega bátunum. Foringjarnir slóu svo í kvöldvöku, en eftir hana var farið í hinn svokallaða tuskuleik, þar sem börnin vörðu fallega sumarkvöldinu hlaupandi um svæðið okkar til að reyna að ná á stöðvar þar sem þau þurftu að leysa þrautir – án þess að foringjar í ófreskjugervi næðu þeim og þurrkuðu burt strikin sem þau unnu sér inn þegar þrautirnar voru kláraðar.

Eftir morgunmat og fánahyllingu á þriðjudag hittist hópurinn svo á morgunstund, þar sem gríðarlega góð umræða átti sér stað um sköpunarsöguna, sem endaði á að allir unnu í hópum við að teikna sinn draumaheim. Í frjálsa tímanum voru bátarnir, kassabílarnir og tennisstöngin vinsæl, auk þess sem nokkrir hófu það sem átti síðar eftir að verða mikil fjöldaframleiðsla á vinaböndum. Eftir hádegismat var svo farið í ratleik á svæðinu, þar sem herbergin hlupu saman á milli stöðva til að leysa verkefni. Þá tók við kaffi, frjáls tími, kvöldmatur, kvöldvaka og hugleiðing, og eftir það var öllum hóað saman í morðgátu-leik um allt hús, eða hálfgerða lifandi útgáfu af Among Us leiknum.

Miðvikudagurinn bauð svo uppá besta veður vikunnar og var því fagnað með útidagskrá allan daginn. Á morgunstund var rætt um fæðingu Jesú, og í kjölfar þess sköpuðust miklar og góðar umræður um meðgöngu og fæðingu barna. Eftir hádegismat skelltu sér allir í sundföt innan undir stuttbuxurnar og haldið var af stað í smá göngu sem endaði á fallegu svæði rétt fyrir utan Hólavatn – Drulluvík – þar sem hægt var að leika sér í vatninu og maka sig í drullu. Til að lengja í gleðinni þar var kaffitíminn ferjaður yfir til barnanna í bát og eftir að allir nærðust var haldið heim á leið. Bátarnir og almenn sólargleði beið barnanna við heimkomu svo margir skoluðu af sér drulluna í vatninu áður en haldið var í sturtu. Eftir fasta dagskrárliði seinni part og kvölds voru krakkarnir sendir í háttinn, en í stað þess að herbergisforingjarnir kæmu inn til að enda daginn með þeim þá hlupu foringjarnir um gangana með útilegutónlist og teppi og söfnuðu öllum saman út á varðeld þar sem við áttum dásamlega stund, grilluðum sykurpúða og hlustuðum á sögu.

Í dag er svo veisludagur, en honum er alltaf fagnað á síðasta fulla degi flokksins. Á morgunstund voru frekari umræður um Jesú, og hver vinnuhópur teiknaði upp sína útgáfu af “ofurhetjunni Jesú”, og kynntu sínar niðurstöður, og þá kosti og krafta sem þeirra ofur-Jesú hafði yfir að ráða. Eftir hádegi var hinn hefðbundni staffabolti, þar sem starfsfólk flokksins skoraði á allan flokkinn í fótbolta. Starfsfólkið gekk frá velli vel bugað eftir 5-0 rúst barnanna. Það var þó enginn tími til að vera tapsár því strax eftir leik var skellt í vatnafjör þar sem allir skoluðu af sér svitann í vatninu okkar – áður en folk flykktist í sturturnar.

Hólempíuleikarnir eru einnig búnir að standa yfir alla vikuna og alls hafa 10 keppnir verið háðar. Gríðar góð þátttaka hefur verið í þrautunum og mikill spenningur fyrir að tilkynnt verði um sigurvegara þeirra við brottför, og Hólempíumeistarinn krýndur. Alla vikuna hafa þreytt en sæl börn lagst til hvílu í lok dags og á hverjum morgni vaknar hjörðin vel gíruð í daginn sem framundan er. Nú von bráðar hefst veislukvöldið okkar, þar sem við eigum okkar síðasta kvöldverð saman. Þar eftir verður veislukvöldvakan, en stór hluti hópsins ætlar að bjóða uppá atriði á kvöldvökunni. Eftir hugleiðingu verður svo slegið upp lokaballi og dansað fram á rauða nótt (eða…aðeins fram á kvöld).

Á morgun er svo brottfaradagur og haldið verður af stað frá Hólavatni klukkan 14:00. Það má því reikna með að koma í Sunnuhlíð verði um 14:40.

Við þökkum traustið og lánið á börnunum ykkar, og vonum að allir þátttakendur komi heim glaðir og hamingjusamir á morgun, með fjöldan allan af góðum sögum í pokahorninu.

Kv. Tinna Rós forstöðukona, og starfsfólkið.