Nú um helgina tókst að ljúka stórum áfanga í nýbyggingu við Hólavatn þar sem reistar voru forsteyptar einingar fyrir efri hæð hússins ásamt forsteyptum loftaplötum á milli hæða og stiga. Um fjögurleytið á föstudag var hafist handa við að hífa loftaplötur ofaná neðri hæð hússins sem reist var í vor. Farið var að skyggja þegar vinnuflokkurinn fór heim á leið en allar plöturnar voru þá komnar í ásamt stiganum sem er á milli hæða. Á laugardeginum var lagt af stað frá Akureyri klukkan sjö og um hádegi var búið að hífa fimm af tíu veggeiningum á efri hæð. Allar einingar voru svo komnar á sinn stað um sexleytið og allir komnir heim fyrir kvöldmat. Á sunnudeginum var svo unnið við uppslátt fyrir samsteypu sem kemur á milli eininga en stefnt er að því að steypa hana á þriðjudag.
Níu sjálfboðaliðar auk kranamanns og vörubílstjóra komu að verkinu um helgina og erum við afar þakklát fyrir blessun Guðs og varðveislu, nú sem endranær. Framundan er talsverð vinna og eru allir þeir sem lagt geta hönd á plóg hvattir til að hafa samband og vera með.

Myndir af húsinu er hægt að skoða hér
en einnig er gaman að benda á tvö örstutt myndbönd sem sýna ferlið, annað er frá föstudeginum en hitt laugardeginum. Myndböndin eru vistuð inn á Youtube en hægt er að skoða þau með því að smella hér.
Föstudagur
Laugardagur