Frá og með deginum í dag, 14. janúar 2011, hefur verið opnað fyrir starfsumsóknir vegna sumarstarfs KFUM og KFUK á Íslandi. Líkt og undanfarin ár fer sumarstarf KFUM og KFUK fram í sumarbúðum félagsins í Vindáshlíð, Kaldárseli, Ölveri, Vatnaskógi og Hólavatni, og þar að auki á leikjanámskeiðum.
Umsóknarfrestur er til 25. febrúar 2011.
Lágmarksaldur til að sækja um starf í sumarbúðum er 18 ár. Þó er mögulegt fyrir yngri einstaklinga að sækja um sem sjálfboðaliðar (eða ,,matvinnungar“), en að öllu jöfnu er miðað við 16 ára aldurstakmark. Þær stöður standa yfir í eina viku í senn, og fela í sér að viðkomandi aðstoði við ýmis störf í sumarbúðunum og fái frítt fæði og húsnæði, en ekki sérstaka launagreiðslu.
KFUM og KFUK á Íslandi leitast við að ráða öflugt og metnaðarfullt sumarstarfsfólk til starfa í sumarbúðum og á leikjanámskeiðum félagsins.
Mikilvægt er að umsækjendur séu reiðubúnir að starfa eftir markmiðum félagsins, (sjá með því að smella
HÉR) og sæki þau námskeið sem ætluð eru starfsfólki.
Þau sem hafa áhuga á að sækja um sumarstarf geta nálgast umsóknareyðublað í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK, Holtavegi 28 í Reykjavík, eða prentað það út á heimasíðu félagsins (með því að smella
HÉR).
Sem hluta af umsóknarferli ber umsækjendum að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að KFUM og KFUK á Íslandi sé heimilt að leita upplýsinga um fullt sakavottorð umsækjenda úr Sakaskrá ríkisins. Starfsumsókn ásamt þessari heimild þarf að skila eða senda til Þjónustumiðstöðvar KFUM og KFUK, Holtavegi 28, 104 Reykjavík, í síðasta lagi 25. febrúar 2011.
Í sumarbúðum KFUM og KFUK gefast tækifæri til einstakrar sumardvalar fyrir börn á aldrinum 6 til 18 ára. Sumarbúðirnar eiga það sameiginlegt að dagskrá þeirra einkennist af ævintýrum, leikjum, uppbyggilegri fræðslu, söng, fjöri, útiveru, óvæntum uppákomum og mörgu fleiru. Það er gefandi og skemmtilegt að starfa í kristilegum sumarbúðum KFUM og KFUK, sem búa yfir ríkri og áralangri hefð. Reynslan úr starfinu er dýrmæt og nýtist mörgum ævilangt.
Allar frekari upplýsingar um staðsetningar og starfsemi sumarbúða KFUM og KFUK má finna hér:
Vatnaskógur
Vindáshlíð
Ölver
Kaldársel
Hólavatn
Ef fyrirspurnir vakna varðandi eitthvað tengt starfsumsóknum um sumarstörf, er velkomið að hafa samband við Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899.