Í svo stóru verkefni er óhugsandi að það sé framkvæmanlegt nema með samstilltu átaki margra og í því sambandi hafa fjölmargir félagsmenn í KFUM og KFUK og aðrir velunnarar Hólavatns lagt sitt að mörkum. Fyrir sumarið 2011 var boðið upp á áheitasöfnun þar sem fólki gafst kostur á að leggja fram ákveðna upphæð í áheit fyrir hvert barn sem myndi dvelja á Hólavatni þá um sumarið. Alls söfnuðust 3.142 kr. og börnin voru 159 talsins og því skilaði sú söfnun um hálfri milljón í byggingarsjóð. Vegna fjölda fyrirspurna og áskorana var ákveðið að endurtaka áheitasöfnunina fyrir sumarið 2012 og nú þegar hafa safnast 1.300 kr. og við gerum okkur vonir um að fjöldi barna í sumar nái 200 þannig að þegar hefur safnast helmingur þess sem söfnunin skilaði í fyrra en mikilvægt er að sem flestir taki þátt þó upphæðin sem hver og einn leggur fram sé ekki endilega svo há. Hægt er að leggja fram áheit á Fésbókarsíðu söfnunarinnar „Byggjum upp Hólavatn“ eða með því að senda tölvupóst á netfangið johann (hjá) kfum.is.
Þá er að síðustu gaman að segja frá því að nú í vikunni barst Hólavatni styrkur frá Menningarsjóði Norvíkur að upphæð 500 þúsund krónur og veitir ekki af því byggingakostnaður á árinu 2012 verður líklega á bilinu 7-9 milljónir króna og enn er nokkuð langt í land að fjármagn liggi fyrir. Verum því stöðug í bæninni og biðjum til Guðs sem fyrir okkur sér. Biðjum um hans blessun og styrk í þessu viðamikla verkefni og biðjum að mörg börn megi fá að dvelja við Hólavatn í sumar.