Héðan af Hólavatni er allt gott að frétta, utan þess að vindarnir blása fast og riðla dagskránni ögn. Við gerum þó gott úr öllu og skemmtum okkur alveg jafn vel þrátt fyrir rokið. Eftir Biblíulestur var þétt innidagskrá. Boðið var upp á borðtennis- og fótboltaspilsmót. Eftir hádegismat var farið í ævintýraleik sem dugði langleiðina fram að kaffi. Eftir kaffið var svo frjáls tími áður en við fórum í sveitaferð að Vatnsenda. Vakti sú ferð mikla lukku og skemmtu drengirnir sér vel. Við komum heldur seint heim að Hólavatni og fórum því beint í mat og svo á kvöldvöku. Fóru allir að sofa þreyttir en sælir eftir viðburðaríkan dag og var komin ró um 23:00. Veisludagur rann svo upp í morgun með enn meira roki en í gær en við höldum ótrauðnir áfram og látum ekkert stoppa okkur í því að skemmta okkur. Meiri fréttir síðar. Hafið það gott!
Arnór, forstöðumaður.