Veisludagur rann upp með sama rokinu og áður og nú var bryggjan okkar meira að segja orðin laus. Eftir morgunstund var foringjaleikur í fótbolta þar sem foringjar kepptu á móti drengjum í fótbolta. Skemmst er frá því að segja að foringjar unnu í markamiklum og skemmtilegum leik. Eftir hádegismat var frjáls tími ásamt því að nokkrir foringjar földu sig úti í skógi og leituðu drengirnir þá uppi. Eftir kaffi var svo boðið upp á ævintýraferðir á árabát þar sem foringi réri bátnum frá landi í ölduganginum og drengirnir fengu að sitja með. Vakti þetta töluverða lukku. Einnig fóru allir í sturtu, enda veislukvöld framundan. Mikið fjör var um kvöldið, veislukvöldvaka og náttfatapartý eftir það. Var mikið hlegið og skemmt sér. Við komum svo heim í dag, föstudag og kveðjum við Hólavatn með trega þó vissulega sé alltaf gott að komast aftur heim til mömmu og pabba. Ég þakka vel fyrir mig.
Arnór, forstöðumaður.