Þá er enn einn dýrðardagurinn hér á Hólavatni að kveldi kominn og ekki annað hægt að segja en að veðrið hafi leikið við okkur í dag. Drengirnir voru vaktir klukkan 8: 30 og voru flestir enn þá sofandi fyrir utan örfáa árrisula drengi, sem byrjuðu daginn snemma og lásu Andrésblöð og Syrpur upp í rúmi. Morgunstund var að venju eftir fánahyllingu og í dag var fjallað um Biblíuna og hvers virði hún gæti verið okkur. Eftir morgunstund var margt skemmtilegt í boði m.a. var drengjunum boðið að veltast um á vatninu í uppblásinni kúlu, margir fóru á bát og enn fleiri fóru í ævintýragönguferð í skóginum. Í hádeginu var matur að allra skapi, pizzur, og átu allir fylli sína og gott betur. Eftir hádegismat var körfuboltamót sem margir tóku þátt í og eftir síðdegishressingu var báta – og vatnafjör og nýttu flestir drengjanna tækifæri til þess að synda í vatninu. Að sjálfsögðu var mikið annað spennandi í boði eins og fótboltaspilsmót, perlumaraþon, borðtennis, hjólabílarallý o.fl. Eftir kvöldvöku vorum við með varðeld í fjörunni og kvöldhressingu kl. 22 var háttatími og flestir sofnaðir upp úr 22:30, enda allir drengirnir orðnir þreyttir eftir viðburðaríkan dag.
Jón Ómar Gunnarsson