Þriðji dagur hófst í morgun og það voru hressir strákar sem fóru á fætur. Morgunmatur, fánahylling og morgunstund voru á sínum stað. Morgunstundin var að þessu sinni úti í mjög góðu veðri. Strákarnir fóru svo að undirbúa sig fyrir hæfileikasýningu sem var eftir hádegismatinn. Sýningin var skemmtileg og atriðin mjög fjölbreytt. Við fengum að sjá leikrit og töfrabrögð, heyra frægar setningar út kvikmyndum og smakka á sérstökum samsetningum af mat.
Við fengum okkur kaffitímann úti í góða veðrinu þar sem allir fengu sólarvörn og drukku vel af vökva. Hitinn hefur verið um 18-19 gráður í dag í skugga en í sólinni hefur hitinn farið vel yfir 30 gráður. Eftir kaffitímann var boðið uppá sull, báta, sund í vatninu, bíla, trampólín og aðra útiveru. Lang flestir drengirnir fóru í einhverskonar vatnafjör.
Eftir fjör dagsins sendum við alla stráka sem fóru í vatnið í sturtu. Við borðuðum kvöldmatinn úti í tilefni sólríka dagsins, við mikinn fögnuð strákanna. Á kvöldvökunni vorum við svo einstaklega heppin að fá til okkar leynigest en töframaðurinn Einar Mikael kom í heimsókn og sýndi strákunum töfrabrögð á kvöldvökunni.
Þegar kvöldvökunni lauk héldu strákarnir að þeir væru að fara að sofa. En það var ekki því við héldum svakalegt náttfatapartý með leikjum, dansi, söng og horfðum svo á leikrit sem endaði með því að allir fengu íspinna. Þá heyrðu strákarnir sögu áður en þeir fóru að gera sig til fyrir svefninn.
Þriðja kvöldið í röð fóru mjög þreyttir drengir upp í rúm að sofa eftir sólríkan og góðan dag á Hólavatni.
kv.
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn
Við minnum á að rútan fer frá Hólavatni upp úr kl. 14 á föstudag og verður komin í Sunnuhlíð um kl. 15.
Einnig minnum við á að ljósmyndir úr flokknum birtast hér (smellið á myndina):
Morgunmatur: Morgunkorn, hafragrautur, mjólk, súrmjólk og fleira.
Hádegismatur: Pylsupasta og ofnbakað brauð með osti.
Kaffitími: Súkkulaðikaka og smurt brauð.
Kvöldmatur: Pizza
Kvöldkaffi: Ávextir og íspinnar.