Frumkvöðlaflokkur 10. – 12. júní 2021

Fimmtudagur

Lögðum af stað frá Sunnuhlíð um 9 leytið og lá leið okkar inn að Hólavatni.

Veðrið var ágætt, smá vindur en sólin var á sínum stað.

Þegar við komum inneftir þá fóru krakkarnir með töskurnar sínar upp á pallinn og skunduðu beint inn í matsalinn. Í matsalnum var farið yfir reglurnar sem eru á Hólavatni og skipt var í herbergi. Krakkarnir fóru með sínum foringjum og gerðu herbergin sín klár. Hér á Hólavatni hefur skapast sú hefð að hvert herbergi er með sinn bænaforingja sem er þeirra foringi á meðan dvöl krakkanna stendur. Bænaforingi er sá sem fer með þeim inn á herbergi á kvöldin, biður með þeim, segir þeim sögur og krakkarnir geta leitað til þeirra ef eitthvað er. Síðan var frjálst.

Í hádegismatinn fengum við skyr og brauð en skyrið var misjafnt á litinn, einhverjir sögðu að það væri rautt, bleikt, blátt, grænt og jafnvel grátt. Eftir hádegismatinn þá opnuðu bátarnir og var megninu að deginum eytt þar.

Í kaffi fengu þau muffinsköku og ávexti en þau höfðu varla tíma til þess að borða því þeim lá svo á að koma út.

Ýmist voru þau úti eða inni þar til kom að kvöldmat.

Í kvöldmat var hakk og spaghettí og ferskt grænmeti sem vakti mikla lukku.

Um kvöldið var kvöldvaka þar sem foringjarnir fóru á kostum í leikritum, það var mikið sungið og mikið hlegið. Í kvöldkaffi var kex og ávextir.

Svo fóru krakkarnir að pissa, tannbursta og í háttinn.

 

Föstudagur

Í morgunmat fengu þau cheerios og kornflex með annað hvort mjólk eða súrmjólk en gátu þau einnig fengið hafragraut.

Eftir morgunmat þá fengu þau að heyra söguna um Sakkeus og spjölluðum við aðeins um það hvernig við komum fram við aðra. Gullna reglan á Hólavatni er sú að það er enginn skilinn eftir, ef krakkarnir sjá að einhver er einn þá eiga þau endilega að athuga hvort sá vill vera með. Það var gaman að heyra að í flestöllum skólum er annað hvort vinastaur eða sól þar sem krakkarnir geta farið ef þeim vantar vin.

Í hádegismat var grjónagrautur sem útbúinn í riastóru fati og getum við sagt að hann hafi runnið ljúflega niður því hann kláraðist.

Veðrið var ekki uppá sitt besta, það var vindur og rigning en við létum það ekki stoppa okkur í því að fara í fjallgöngu. Gengum við út á fótboltavöll og með fram girðingunni sem umlykur Hólavatn. Fannst krökkunum þetta gaman en þau voru orðin vel þreytt eftir gönguna. Þeim fannst gaman að sjá hversu stórt svæði Hólavatn hefur.

Í kaffinu fengu þau súkkulaðiköku og ávexti. Voru krakkarnir helst til inni, annað hvort í kósý, fóru í sturtu eða léku sér.

Í kvöldmat var fiskur í raspi með kartöflustöppu og fersku grænmeti. Svo hófst undirbúningur fyrir kvöldvöku og voru krakkarnir með hana. Þau fóru öll á kostum og skemmtu sér mjög vel. Í kvöldkaffi fengu þau sun lolly, kex og ávexti.

Það var almenn þreyta í hópnum og allir hvíldinni fegnir – sofnuðu þau hratt.

 

Laugardagur

Í morgunmat fengu þau cheerios og kornflex með annað hvort mjólk eða súrmjólk en gátu þau einnig fengið hafragraut.

Eftir morgunmat þá fengu þau að heyra söguna um Miskunnsama Samverjann og fannst þeim sagan áhugaverð. Þau töluðu öll um það að allir ættu að eiga vini og einhvern sem gæti aðstoðað þau ef eitthvað bjátaði á.

Eftir söguna þá fóru flestöll í það að pakka niður og bíða eftir foreldrunum. Það var mikil spenna að fá að sýna þeim hvað krakkarnir höfðu verið að gera og þá sérstaklega að sýna þeim bátana.

Í hádeginu voru grillaðar pylsur og buðu krakkarnir foreldrum sínum að borða með sér.

Veðrið var frábært, sól og hiti og tilvalið að enda flokkinn þannig.

 

Fyrsti flokkur gekk mjög vel og nutum við starfsfólkið að vera með krökkunum.

 

Eydís Ösp Eyþórsdóttir

Forstöðukona

Fleiri myndir úr flokknum má sjá hér https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157719423083217