Dagurinn í gær einkenndis af miklum hita! Í skugga fór hitinn upp í 28°C svo það var ekki skrítið að krökkunum væri heitt.

Drengirnir fóru mikið í vatnið og fengu að renna sér í vatnsrennibraut sem við bjuggum til úti í brekkunni. Þetta var mikið sport og margir fóru allnokkrar ferðir niður!

Kaffitíminn var úti enda margir blautir strákar sem ekki voru tilbúnir til þess að fara í sturtu og fara í þurr föt. Sólarvarnarlögreglan var einnig á sínum stað! 😉 Eftir það hélt hluti hópsins áfram að skemmta sér í vatninu, aðrir fóru í Folf, sumir vildu frekar fara inn í rólegheit og enn aðrir að undirbúa skemmtiatriði fyrir kvöldið.

Þegar að um klukkutími var eftir af þeim tíma sem vatnið, bátarnir og fleira var opið var lang stærsti hluti drengjanna kominn inn svo þeir voru orðinir vel þreyttir á sólinni. Hér varð því svakalegt perlu og teiknipartý inni. 🙂 Í kvöldmatinn voru pizzur sem runnu hratt ofan í svanga og þreytta drengi sem voru strax farnir að geyspa í kvöldmatnum.

Eftir kvöldmatinn var kvöldvaka en þar voru þeir drengir sem vildu með skemmtiatriði. Það var stórt skref fyrir suma og allir skemmtu sér vel. Í lokin fengu þeir svo bæði epli og kex áður en þeir fóru að hátta, pissa og bursta.

Drengirnir fóru svo snemma uppí rúm í gær og bænaforingjarnir fóru í leiki með þeim inni á herbergjum og svo var komin ró í húsið óvenju snemma. Enda tekur á að vera á fullu úti í sterkri sólinni. 🙂

En drengir sem sofna snemma, vakna oft líka snemma. Hér var því perlupartý fyrir hressa drengi í morgun til þess að gefa þeim sem sváfu ennþá meiri svefnfrið.

Það voru því úthvíldir drengir sem mættu í morgunmat, gengu frá í herberjum, fóru út í fánahyllingu og á morgunstund og eru tilbúnir í þennan veisludag! Hér á Hólavatni tölum við um síðasta heila daginn okkar saman sem veisludag. 🙂 Þá er oft gert eitthvað extra. Til dæmis eru drengirnir núna að undirbúa sig fyrir staffabolta en þá er öllum boðið að keppa saman í fótbolta á móti starfsfólkinu. Það er oft mjög skemmtilegt og sumir bíða alla vikuna eftir þessu.

Við sjáum að margir hafa skoðað myndirnar frá flokknum og það mun bætast meira við. Endilega skoðið einnig myndirnar og lesið fréttirnar með drengjunum þegar að þið komið heim. Þá fáið þið örugglega að heyra ennþá meira frá þeim en annars. 🙂

Hér er slóð á myndasíðuna:

IMG_0914

Við viljum einnig nefna að heimkoma er í Sunnuhlíð um kl. 15 á morgun. 🙂 Þá er mjög gott fyrir ykkur að kíkja á óskilamunina og að taka lyf barnanna aftur til baka. 🙂

Þangað til á morgun.
Telma Ýr og Bogi forstöðumenn.