Það er búið að vera skemmtilegt hjá stelpunum í þessum stappfulla 3. flokki hér á Hólavatni. Þær eru á bilinu 8 til 10 ára, flestar frá Akureyri og nokkrar frá Mývatnssveit. Einn daginn í lok morgunstundar virðumst við hafa lent í því „óhappi“ að einhver hafi gripið snúruna af rafmagnspíanói og hlaupið með hana á brott. En það varð allt í lagi að lokum því við ræstum út Ævintýraleik til að finna týndu snúruna. Eftir mikla leit um skóginn og milli mismunandi stöðva og þrauta kom í ljós að einhver óprúttinn aðili hafði legið með snúruna í bát við bryggju. Því leystist þetta mál farsællega og aftur var hægt að spila undir söng um kvöldið sama dag.

Stelpurnar sýndu okkur mörg leikrit á fjörugri kvöldvöku á miðvikudag þar sem hugmyndaflugið fékk að njóta sín.

Við tók veislukvöldvaka í kvöld, þar sem starfsfólkið sýndi sínar leikrænustu hliðar.

Veðrið hefur verið alls konar en við höfum haft fjölbreytta dagskrá í takt við það.
Ekki má gleyma „staffa“bolta þar sem starfsfólk keppti við börn í fótbolta…og að þessu sinni unnu börnin okkur eftir hatramma keppni.
Bendum á nýjar myndir hér:
https://flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720299999146