Árleg kaffisala sumarbúðanna Hólavatni fer fram sunnudaginn 16. ágúst kl. 14.30-17.00. Fjölmargt í boði fyrir alla fjölskylduna, útileiktæki, bátar o.fl. Rétt er að vekja athygli á því að ekki er tekið við greiðslukortum en gjald fyrir fullorðna er 1.500 kr. en 500 kr. fyrir börn 6-12 ára.  Á kaffisölunni verða til sýnis og sölu fuglamyndir Eyþórs Inga Jónssonar en söluandvirði myndanna rennur til sumarbúðanna. Sýningin ber yfirskriftina „Fuglar í nágrenni Hólavatns“ og er styrkt af Menningarsjóði Akureyrar og er í tilefni 50 ára afmælis Hólavatns.

Sumarið gekk ljómandi vel á Hólavatni í sumar en alls dvöldu tæplega 250 börn í 9 dvalarflokkum og er það mjög svipuð aðsókn og sumarið 2014. Þrátt fyrir frekar kaldan júlímánuð var góð stemming og mikið um útiveru og bátaferðir. Það er óskandi að vinir og velunnarar Hólavatns vilji koma og taka þátt í gleðinni með okkur á kaffisölu á sunnudaginn. Allir eru hjartanlega velkomnir.